Innlent

Baldur harð­neitar að segja hver lagði að honum að hætta

Jakob Bjarnar skrifar
Baldur Þórhallsson segir um tveggja einstaklinga tal að ræða og hann vill ekki upplýsa um hver lagði að honum að leggja niður vopn.
Baldur Þórhallsson segir um tveggja einstaklinga tal að ræða og hann vill ekki upplýsa um hver lagði að honum að leggja niður vopn. vísir/vilhelm

Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi hélt því fram í kappræðum Heimildarinnar í vikunni að hann hafi verið hvattur til að bjóða sig ekki fram til embættis forseta Íslands. Hann neitar að upplýsa um hver sá var sem það gerði.

Fram kom að þetta væri í tengslum við mögulegt framboð Katrínar Jakobsdóttur þá forsætisráðherra. Og hvatningin mun hafa komið úr herbúðum hennar, en áður en fyrir lá að Katrín myndi fara fram.

Katrín sagði við sama tækifæri að þetta væri nýtt fyrir sér og hún óskaði eftir því að fá að vita hver sá væri sem hefði hvatt Baldur til að leggja niður skottið. En Baldur neitaði.

Vísir gekk á eftir svörum við Baldur, því meðan um er að ræða huldumann getur þetta vart flokkast undir annað en dylgjur. Baldur segir hins vegar að honum hafi verið nauðugur einn kostur, að svara á þann veg sem hann gerði.

„Allir frambjóðendurnir fengu spurningu um það hvort einhverjir hefðu þrýst á okkur um að draga framboð okkar til baka. Ég svaraði því eins og er enda ekkert leyndarmál. En ég get ekki gefið upp hverjir það voru enda um tveggja einstaklinga tal að ræða,” segir Baldur spurður beint út hver þessi einstaklingur væri.

En Baldur áttar sig á að meðan viðkomandi er nafnlaus þá getur þetta aldrei flokkast undir annað en vafasaman orðróm?

„Það eru fleiri til vitnis um að þessi samtöl hafi átt sér stað. Svo fólk getur bara ákveðið fyrir sig hvað það gerir við þessar upplýsingar.”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×