Sport

Á­horf­andi hrækti á keppanda og nú á að banna á­fengi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Belgíski tenniskappinn David Goffin fékk væna slummu í andlitið á Grand Slam mótinu.
Belgíski tenniskappinn David Goffin fékk væna slummu í andlitið á Grand Slam mótinu. Mateo Villalba/Getty Images

Opna franska meistaramótið í tennis hefur ákveðið að bregðast við kvörtunum kappans David Goffin og banna áfengissölu á mótinu. 

Goffin sagðist eftir keppni á þriðjudag hafa lent í því miður skemmtilega atviki að áhorfandi hrækti á hann úr stúkunni. 

„Þetta hefur gengið of langt, algjör vanvirðing. Þetta fer að verða eins og fótbolti, bráðum fáum við reyksprengjur inn á völlinn, skemmdarverk og slagsmál í stúkunni. Þetta er farið að verða fáránlegt, sumt fólk mætir bara til að valda vandræðum frekar en að skapa stemningu,“ sagði Goffin í viðtölum á þriðjudag. 

Atvikið átti sér stað þegar Goffin lagði hönd við eyra til heyra betur í áhorfendum, rétt eftir að hafa slegið út heimamanninn Mpetshi Perricard. 

Franska tennissambandið biðlaði til áhorfenda á mótinu að sýna keppendum virðingu. Það virðist ekki hafa borið árangur því nú hefur sambandið ákveðið að banna áfengissölu á Roland Garros, þar sem mótið fer fram. 

Sömuleiðis hefur sambandið reynt að hafa uppi á áhorfandanum sem hrækti á Goffin og aukið öryggisgæslu við völlinn til að koma í veg fyrir fleiri slík atvik. 

Opna franska meistaramótið er fyrsta Grand Slam mótið sem bannar áfengissölu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×