Fótbolti

Mourinho að taka við liði í Tyrk­landi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
José Mourinho er ekki allra en óneitanlegur sigurvegari sem hefur hampað titlum hvert sem hann fer.
José Mourinho er ekki allra en óneitanlegur sigurvegari sem hefur hampað titlum hvert sem hann fer. Ivan Romano/Getty Images

José Mourinho virðist hafa gengið frá samkomulagi um að taka við þjálfun tyrkneska félagsins Fenerbahce.

Mourinho er nafn sem þarf vart að kynna fyrir knattspyrnuáhugamönnum. Portúgalski sjarmörinn hefur stýrt mörgum af bestu liðum Evrópu undanfarna rúmlega tvo áratugi. Síðast var hann við stjórnvölinn hjá AS Roma á Ítalíu og stýrði liðinu til sigurs í Sambandsdeildinni 2022.

Árið eftir fór hann með liðið í úrslit Evrópudeildarinnar en tapaði þar fyrir Sevilla. Á þessu tímabili var félagið í miklum fjárhagsörðugleikum og tímabilið fór illa af stað. Mourinho var svo vikið frá störfum í janúar og hefur verið atvinnulaus síðan.

Greint er frá því að Mourinho muni skrifa undir tveggja ára samning við tyrkneska risann, með möguleika á eins árs framlengingu. Samningurinn verður að öllum líkindum undirritaður síðar í dag og formleg tilkynning berst í kjölfarið. 

Fenerbahce er eitt sigursælasta og vinsælasta félag Tyrklands, liðið hefur aldrei fallið úr efstu deild og nítján sinnum staðið uppi sem sigurvegari, síðast árið 2014. Erkifjendur þeirra í Istanbul, Galatasaray, vann deildina á nýafstöðu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×