Innlent

Fundi af­lýst í alls­herjar- og mennta­mála­nefnd

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Bryndís Haraldsdóttir er formaður allsherjar- og menntamálanefndar. 
Bryndís Haraldsdóttir er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.  Vilhelm

Fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis var aflýst með skömmum fyrirvara í morgun.

Á fundinum stóð til að afgreiða hið svokallaða útlendingafrumvarp úr nefndinni. Það staðfesti Bryndís Haraldsdóttir formaður nefndarinnar í það minnsta við Morgunblaðið í blaði dagsins.

Fundurinn er hinsvegar ekki lengur á dagskrá á vef Alþingis og segir Bergþór Ólason nefndarmaður í samtali við fréttastofu að hann hafi verið afboðaður í morgun.

Málið hefur verið nokkuð umdeilt og meðal annars hefur Umboðsmaður barna sagt að ákvæði í frumvarpinu um fjölskyldusameiningar stangist á við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í samtali við Morgunblaðið í morgun sagði Bryndís hinsvegar að þau sjónarmið Umboðsmanns séu ekki nægjanlega sterk, að sínu mati.

Því sagðist hún búast við því að frumvarpið yrði afgreitt úr nefndinni og síðan sett á dagskrá Alþingis nú í vikunni. Einhver snurða virðist þó hafa hlaupið á þráðinn í ljósi þess að nefndarfundinum var aflýst.

Ekki hefur náðst í Bryndísi Haraldsdóttur eða aðra nefndarmenn úr meirihlutanum.


Tengdar fréttir

Píratar hafa áhyggjur af skorti á eftirliti með lögreglu

Þingmaður Pírata segir greinilegt að alger samstaða sé milli stjórnarflokkanna um að afgreiða breytingar á útlendingalögum sem herði að þeim sem þurfi á vernd að halda. Þá verði ekki nægjanlegt eftirlit með því hvernig lögregla beiti auknum rannsóknarheimildum á fólki sem ekki hefði framið neinn glæp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×