Innlent

Skeiða- og Gnúp­verja­hreppur enn Skeiða- og Gnúp­verja­hreppur

Jón Þór Stefánsson skrifar
Það verður engin þörf á því að skipta um skilti.
Það verður engin þörf á því að skipta um skilti. vísir/magnús hlynur

Íbúar Skeiða- og Gnúpverjahrepps greiddu atkvæði samhliða forsetakosningum um helgina um hvort breyta skyldi nafni hreppsins. Íbúar ákváðu að halda í nafnið og því lifir Skeiða- og Gnúpverjahreppur.

Á kjörskrá voru 462, en alls kusu 339. Kjörsókn var því 73 prósent. 131 vildu skipta um nafn en 199 vildu halda í það. Þá voru auðir og ógildir seðlar níu talsins.

„Það er því ljóst að ekki verður skipt um nafn á sveitarfélaginu og er íbúum þakkað fyrir góða þátttöku,“ segir í tilkynningu frá hreppnum.

Greint var frá því í janúar að kosið yrði um nýtt nafn. Haraldur Þór Jónsson sveitarstjóri taldi mikilvægt að breyta nafni sveitarfélagsins, og að nýtt nafn myndi bera sterkari tengingu til staðsetningar sveitarfélagsins á Íslandi.

Þá vildi hann að nýja nafnið yrði þjálla í notkun. Það myndi gegna mikilvægu hlutverki í því að skapa ímynd sveitarfélagsins til framtíðar.

Skeiðahreppur og Gnúpverjahreppur sameinuðust undir nafninu Skeiða- og Gnúpverjahreppur vorið 2002.

Atkvæðagreiðsla var um nýtt nafn á hreppinn árið 2016. Þá hlaut Skeiða- og Gnúpverjahreppur rúman helming atkvæða. Þjórsárhreppur hlaut næstflest atkvæði, og Þjórsársveit þriðju flest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×