Viðskipti innlent

Tæp­lega sex­tíu sagt upp hjá Land­vinnslu Þor­bjarnar í Grinda­vík

Jón Þór Stefánsson skrifar
Frá fiskvinnslu Þorbjarnar í Grindavík.
Frá fiskvinnslu Þorbjarnar í Grindavík. Vísir/Einar

Fimmtíu og sjö starfsmönnum hjá Landvinnslu Þorbjarnar í Grindavík var sagt upp síðastliðinn fimmtudag, þrítugasta maí. Þetta staðfestir Jóhann Gunnarsson, yfirmaður landvinnslu Þorbjarnar, í samtali við fréttastofu.

Hann segir að af þessum 57 hafi 35 starfsmenn verið að starfa hjá fyrirtækinu undanfarið. Hin hafi verið farin erlendis og ekkert starfað hjá Þorbirni síðan í nóvember þegar bærinn var fyrst rýmdur vegna jarðhræringa.

Jóhann segir að ástæðuna fyrir uppsögnunum megi rekja til ástandsins í bænum.

„Við vorum undir helmingsafköstum í vinnslunni,“ útskýrir Jóhann.

„Við vorum búin að vera að byggja vinnsluna upp, laga hana til, og vorum nýbúin að ræsa nýtt frystikerfi í nóvember þegar þetta dundi yfir. Við vorum búin að reyna að halda lífinu í þessu, en við ákváðum að þetta væri komið gott í bili.“

Þá hafi fyrirtækið hafi ekki viljað lenda í því að sitja inni með mikið magn af fisk í bænum þegar hann væri lokaður.

Jóhann segist ekki vita til þess að uppsagnir hafi verið hjá öðrum stöðum í Þorbirni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×