Innlent

Líkams­á­rás, inn­brot og vesen á stiga­göngum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Einn var handtekinn í tengslum við líkamsárás.
Einn var handtekinn í tengslum við líkamsárás. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti nokkuð fjölbreyttum málum í gærkvöldi og nótt en í mörgum tilvikum var um að ræða ölvaða einstaklinga eða aðra sem voru að vera til vandræða.

Einn var handtekinn eftir að tilkynnt var um skemmdarverk og einstakling í annarlegu ástandi á hóteli í miðborginni. Þá var tilkynnt um ölvaðan einstakling sem var að vafra um í póstnúmerinu 105 og ók lögregla honum heim.

Ein tilkynning barst um innbrot í sama hverfi og þá var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í póstnúmerinu 108 en engin ummerki var að finna á vettvangi þegar lögreglu bar að garði.

Lögreglu barst einnig tilkynning um einstakling sem var sagður sofa í bifreið sinni í Garðabæ. Sá reyndist alsgáður við nánari athugun. Í Kópavogi sinnti lögregla tveimur málum þar sem vísa þurfti einstalingum úr stigagöngum.

Ein tilkynning barst um innbrot og þjófnað í Kópavogi og þá var tilkynnt um líkamsárás í Seljahverfi en árásarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Lögregla kom einnig að fjögurra bifreiða árekstri í Ártúnsbrekku, þar sem engan sakaði. Þá var tilkynnt um þjófnað í verslun í póstnúmerinu 110 en það mál var afgreitt á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×