Þýska fréttaveitan dpa segir að ráðist hafi verið á sveitarstjórnarmann AfD með hnífi. Lögreglan á staðnum hefur ekki veitt upplýsingar um málið enn sem komið er. Dpa segir að árásarmaðurinn hafi verið handtekinn. Flokkurinn segir að fórnarlambið sé á sjúkrahúsi og að árásarmaðurinn kunni að vera róttækur vinstrisinni.
Tuttugu og fimm ára gamall afganskur karlmaður stakk nokkra liðsmenn öfgahægrihóps sem stóð fyrir mótmælum gegn „pólitísku íslam“ á laugardag. Árásarmaðurinn stakk einnig lögreglumann sem reyndi að skerast í leikinn áður en hann var skotinn og særður. Lögreglumaðurinn, sem var 29 ára gamall, lést af sárum sínum á sjúkrahúsi á sunnudag.
Marco Buschmann, dómsmálaráðherra Þýskalands, greindi frá því á mánudag að skýrar vísbendingar væru um að árásarmaðurinn hefði aðhyllst íslamska öfgahyggju. Alríkissaksóknarar sem sjá um hryðjuverka- og þjóðaröryggismál tækju við rannsókninni.
Hrina árása hefur verið gerð á þýska stjórnmálamenn í kosningabaráttu þeirra á undanförnum misserum. Evrópuþingskosningar fara fram í Þýskalandi og öðrum Evrópusambandsríkjum á sunnudag. Þá verður kosið í einstökum þýskum sambandslöndum og sveitarstjórnum síðar á þessu ári.