Erlent

Stungu­á­rás á full­trúa þýsks fjar­hægri­flokks

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn í Mannheim syrgja fallinn félaga sinn sem var stunginn til bana á mótmælum gegn íslam á laugardag.
Lögreglumenn í Mannheim syrgja fallinn félaga sinn sem var stunginn til bana á mótmælum gegn íslam á laugardag. AP/Michael Probst

Fulltrúi þýska fjarhægriflokksins Valkosts fyrir Þýskaland (AfD) var stunginn í árás í borginni Mannheim í suðvesturhluta Þýskalands seint í gær. Aðeins nokkrir dagar eru frá því að lögreglumaður var stunginn til bana í mótmælum gegn íslam í borginni.

Þýska fréttaveitan dpa segir að ráðist hafi verið á sveitarstjórnarmann AfD með hnífi. Lögreglan á staðnum hefur ekki veitt upplýsingar um málið enn sem komið er. Dpa segir að árásarmaðurinn hafi verið handtekinn. Flokkurinn segir að fórnarlambið sé á sjúkrahúsi og að árásarmaðurinn kunni að vera róttækur vinstrisinni.

Tuttugu og fimm ára gamall afganskur karlmaður stakk nokkra liðsmenn öfgahægrihóps sem stóð fyrir mótmælum gegn „pólitísku íslam“ á laugardag. Árásarmaðurinn stakk einnig lögreglumann sem reyndi að skerast í leikinn áður en hann var skotinn og særður. Lögreglumaðurinn, sem var 29 ára gamall, lést af sárum sínum á sjúkrahúsi á sunnudag.

Marco Buschmann, dómsmálaráðherra Þýskalands, greindi frá því á mánudag að skýrar vísbendingar væru um að árásarmaðurinn hefði aðhyllst íslamska öfgahyggju. Alríkissaksóknarar sem sjá um hryðjuverka- og þjóðaröryggismál tækju við rannsókninni.

Hrina árása hefur verið gerð á þýska stjórnmálamenn í kosningabaráttu þeirra á undanförnum misserum. Evrópuþingskosningar fara fram í Þýskalandi og öðrum Evrópusambandsríkjum á sunnudag. Þá verður kosið í einstökum þýskum sambandslöndum og sveitarstjórnum síðar á þessu ári.


Tengdar fréttir

AfD náði ekki að sigra eftir hrinu hneykslis­mála

Fjarhægriflokknum Valkosti fyrir Þýskaland (AfD) tókst ekki að tryggja sér neina sigra þrátt fyrir að hann bætti stöðu sína í kosningum í höfuðvígi sínu í Austur-Þýskalandi um helgina. Hvert hneykslismálið hefur rekið annað hjá flokknum síðustu vikurnar.

Framámaður AfD sektaður fyrir að nota slagorð nasista

Björn Höcke, leiðtogi hins öfgafulla þýska stjórnmálaflokks Valkosts fyrir Þýskaland í Þýringalandi, hefur verið dæmdur til að greiða sekt fyrir að hafa notað eitt af slagorðum brúnstakka nasistanna á stuðningsmannafundi.

Hrina á­rása á þýska stjórn­­mála­­menn veldur á­hyggjum

Ráðist var á hátt settan félaga í stjórnarflokki Olafs Scholz, kanslara Þýskalands, í Berlín í gær. Aðeins nokkrir dagar eru frá því að annar flokksmaður þurfti að gangast undir aðgerð eftir að menn réðust á hann með spörkum og barsmíðum. Hrina árása á stjórnmálamenn hefur verið tengd við uppgang öfgahægrihyggju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×