Innlent

Mál Vals fellt niður sem Heilsu­vernd segir hafa verið storm í vatns­glasi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Valur Helgi Kristinsson heimilislæknir.
Valur Helgi Kristinsson heimilislæknir. Heilsuvernd

Embætti landlæknis hefur fellt niður eftirlitsmál sem varðaði skilaboð Vals Helga Kristinssonar heimilislæknis við skjólstæðinga í gegnum samskiptakerfi Heilsuveru.

Heilsuvernd, sem rekur Heilsugæsluna í Urðarhvarfi þar sem Valur starfar, greinir frá þessari niðurstöðu á Facebook.

„Við fögnum þessari niðurstöðu innilega og að búið sé að hreinsa þessar ávirðingar með skýrum og formlegum hætti,“ segir í færslunni.

Þar segir jafnframt að Valur, sem vann um árabil fyrir norðan, hafi í umræddum samskiptum tilkynnt skjólstæðingum sínum að hann hefði skiptu um vinnustað og hann útskýrt fyrir þeim hvernig þeir gætu haft samskipti við hann áfram ef þau óskuðu eftir því.

„Sérfræðingar embættisins fóru vandlega yfir svör og röksemdafærslu Vals og telja að með svörum hans hafi hann útskýrt málið með fullnægjandi hætti. Málinu hefur því verið lokað í málaskrá embættisins.“

Þá segir að Vali hafi verið gert að svara fimmtán spurningum vegna málsins og að hann hafi notið liðsinnis Heilsugæslunnar í Urðarhvarfi og Læknafélags Íslands við það.

Heilsuvernd segist hafa talið málið „storm í vatnsglasi“ frá upphafi. „Þá kom sérstaklega fram að við teldum að ekkert óeðlilegt hafi átt sér stað líkt og tenglar þeir sem eru hér að neðan bera vitni um.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×