Innlent

Ungur maður varð fyrir al­var­legri líkams­á­rás í Ár­bæ

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Árásarmennirnir tóku síma drengsins og úr.
Árásarmennirnir tóku síma drengsins og úr. Vísir/Vilhelm

Ráðist var á átján ára mann á leið sinni heim úr útskriftarveislu í Árbæ aðfaranótt sunnudags. Hann var kýldur, sparkað var í hann liggjandi í höfuð, brjóstkassa og maga.

Mbl.is greindi fyrst frá.

Móðir mannsins birti nafnlausa færslu á hverfissíðu Árbæjar á Facebook þar sem hún segir son sinn hafa orðið fyrir hrottalegri og tilefnislausri árás. Hann er sagður hafa misst meðvitund en að leigubílstjóri sem var á vettvangi varð vitni að árásinni og skarst í leikinn.

„Við fjölskyldan gerum okkur alveg grein fyrir því að ef þessi leigubílstjóri hefði ekki komið að vettvangi, þá væri sonur okkar kannski ekki á lífi í dag,“ skrifar móðirin.

Litið alvarlegum augum

Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir þetta og segir málið vera til rannsóknar. Árásarmannanna sé enn leitað en fórnarlambið kvaðst ekkert þekkja til þeirra.

Árásin flokkast sem alvarleg líkamsárás að sögn Valgarðs og að árásarmennirnir hafi komið úr bíl og ráðist á manninn.

Hann segir árásarmennina einnig hafa tekið af manninum símann hans og úr.

„Fólk á að geta gengið frjálst um göturnar án þess að ráðist sé á það eða það rænt. Þetta mál er litið alvarlegum augum og við erum að reyna að finna það út hverjir þetta gætu verið,“ segir Valgarður í samtali við fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×