Skoðun

Sann­gjarnt líf­eyris­kerfi: Í and­stöðu við yfir­lýst mark­mið

Alma Ýr Ingólfsdóttir skrifar

Á Alþingi Íslendinga er nú til meðferðar frumvarp um endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu, sem myndi fela í sér einhverjar mestu breytingar á kerfinu fyrr og síðar verði frumvarpið samþykkt. ÖBÍ réttindasamtök hafa komið á framfæri fjölda athugasemda og tillagna um breytingar á frumvarpinu.

Ein tillagan snýr að örorkulífeyristökum sem fá hlutfallslegar greiðslur vegna fyrri búsetu erlendis.

Frá árinu 2016 hafa ÖBÍ réttindasamtök þurft að reka dómsmál til að ná því fram að fjárhæðir, sem stjórnvöld sjálf hafa ákveðið að sé lágmarksframfærsla, séu ekki skertar hjá örorku- og endurhæfingarlífeyristökum vegna búsetu erlendis fyrir upphaf greiðslna. Málið snýst um greiðsluflokk sem nefnist „sérstök framfærsluuppbót“ (framvegis framfærsluuppbót) og er ætlað að tryggja lágmarksfjárhæð til framfærslu, en fjárhæð þessa greiðsluflokks var skert á grundvelli reglugerðarákvæðis þess efnis að framfærsluuppbótin væri greidd í hlutfalli við búsetu á Íslandi. Dómur Hæstaréttar frá 6. apríl 2022 í máli nr. 52/2021 varðaði ágreining sem laut m.a. að því aðóheimilt hafi verið að skerða greiðslur á framfærsluuppbót, vegna fyrri búsetu erlendis. Dómurinn slær því föstu að í fjölmörg ár hafi hinir verst settu örorku- og endurhæfingarlífeyristakar ekki fengið þá lágmarksfjárhæð sem þeim var nauðsynleg. Í kjölfar dómsins var fyrrnefndu reglugerðarákvæði breytt þannig að framfærsluuppbót er ekki lengur reiknuð út frá búsetuhlutfalli. Um hálfu ári frá uppkvaðningu dómsins voru greiðslur leiðréttar fjögur ár aftur í tímann. Málarekstur til að ná fram leiðréttingum fyrir árin 2012 til 2018 stendur enn yfir. Héraðsdómur Reykjavíkur felldi dóm 14. desember 2023 þess efnis að Tryggingastofnun ríkisins beri að leiðrétta óheimilar skerðingar á greiðslum til örorkulífeyristaka aftur til 1. janúar 2012. Ríkið tók hins vegar ákvörðun um að áfrýja dóminum.

Sú réttarbót sem rakin hefur verið stuttlega og náðst hefur í gegnum dómsmál gæti að engu orðið ef breytingar varðandi þennan greiðsluflokk sem fyrirhugaðar eru í frumvarpi félags- og vinnumarkaðsráðherra um endurskoðun örorkulífeyriskerfis almannatrygginga verða að lögum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framfærsluuppbótin verði felld niður og verði þess í stað hluti af nýjum greiðsluflokki örorkulífeyris. Hinn nýi greiðsluflokkur verði ákvarðaður í samræmi við búsetuhlutfall eða áunna búsetu. Mun þetta leiða til talsverðar lækkunar fyrir þann hóp sem hefur ekki áunnið sér full réttindi hér á landi. Í staðinn er lagt til að sett verði bráðabirgðaákvæði sem tekur til þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri ásamt framfærsluuppbót 31. ágúst 2025. Vandinn við bráðabirgðaákvæðið er tvíþættur. Annars vegar nær það ekki til einstaklinga sem koma nýir inn og byrja að fá greiðslur eftir gildistöku laganna. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að samanburðarfjárhæðin, þ.e. fjárhæð framfærsluuppbótar í ágúst 2025, verði verðtryggð. Þess heldur er gert ráð fyrir að eftir því sem örorkulífeyrir hækkar í samræmi við verðtryggingu muni munur á greiðslum til þeirra sem þurfa að treysta á framfærsluuppbótina og annarra sem eru með fullt búsetuhlutfall aukast.

Fyrirætlanir þessar ganga gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og skuldbindingum íslenska ríkisins á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þ.e. með því að skilja eftir hóp fatlaðs fólks sem hefur erlendan bakgrunn og þau sem bjuggu erlendis áður en til örorkumats kom. Auk þess að vera í andstöðu við jafnræði í samanburði við aðra verður skert framfærsla hópsins að teljast í andstöðu við 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar sem felur í sér skyldu til að tryggja öllum sem þess þurfa lágmarks aðstoð vegna sjúkleika, örorku og sambærilegra atvika. Með ákvörðun um upphæð óskerts örorkulífeyris telja stjórnvöld sig uppfylla þessa skyldu og telur ÖBÍ því ljóst að hún getur ekki talist uppfyllt gagnvart þeim sem fá lægri greiðslur vegna fyrri búsetu erlendis.

ÖBÍ réttindasamtök hafa því lagt til að framfærsluuppbótin haldi gildi sínu þar til framtíðarlausn hefur verið fundin fyrir þá sem ekki hafa áunnið sér eða munu ávinna sér rétt til fullra örorkulífeyrisgreiðslna. Þar með yrði tryggt að greiðslu ofangreinds hóps lækki ekki. Með þeim hætti er fyrirbyggt að afturför verði í réttindum og óþarft verður að halda áfram málarekstri til að tryggja skyldubundna lágmarksframfærslu.

ÖBÍ hvetur Alþingi til þess að verða við ábendingum í umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarpið og sýna í verki að því stendur ekki á sama um rétt þeirra sem ekki ná að ávinna sér full réttindi í almannatryggingakerfinu. Ef frumvarpið fer í gegn óbreytt verða greiðslur til þessa hóps skertar í beinni andstöðu við yfirlýst markmið frumvarpsins um að bæta sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa.

Höfundur er formaður ÖBÍ réttindasamtaka.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×