Fótbolti

Kroos mun ein­beita sér að þjálfun og hlaðvarpshaldi eftir EM

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Toni Kroos lék sinn síðasta heimaleik fyrir Real Madríd á dögunum en hann leggur skóna á hilluna eftir EM í sumar.
Toni Kroos lék sinn síðasta heimaleik fyrir Real Madríd á dögunum en hann leggur skóna á hilluna eftir EM í sumar. EPA-EFE/Javier Lizon

Toni Kroos mun áfram búa í Madríd eftir að hann leggur skóna á hilluna og starfa sem ungmennaþjálfari.

Kroos tilkynnti fyrir stuttu að fótboltaferill hans væri á enda. Tíðindin voru mjög óvænt þar sem hann er enn einn besti miðjumaður heims og fagnaði nýlega sínum sjötta Meistaradeildartitli.

Hann greindi svo frá sínum næstu skrefum í viðtali við þýska fjölmiðilinn Kicker.

„Ég mun áfram halda úti hlaðvarpi með bróður mínum, Felix. Svo mun ég halda áfram akademíustörfum fyrir unga fótboltamenn í Madríd. Það er alveg á hreinu að ég mun setja fjölskylduna í forgang og ekki ferðast eins mikið og ég gerði sem leikmaður.“

Kroos mun spila með Þýskalandi á EM í sumar og hætta svo störfum sem fótboltamaður. Hann kveður leikinn sem einn sigursælasti leikmaður sögunnar og sama hvernig fer í sumar gengur hann burt sem goðsögn.

„Ég vil að fólk muni eftir mér svona, sem 34 ára gamall Toni Kroos sem var að ljúka stórkostlegu tímabili hjá Real. Ég tek því sem hrósi að fólki finnist ákvörðunin of snemmbær. Fólk hefur skoðanir en ég styðst við staðreyndir,“ sagði Kroos að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×