Innlent

Hraun runnið að Grindavíkurvegi

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Frá eldgosinu við Sundhnúksgíga sem hófst 29. maí.
Frá eldgosinu við Sundhnúksgíga sem hófst 29. maí. Vísir/Vilhelm

Hraun úr eldgosinu á Reykjanesskaga er komið að Grindavíkurvegi norðan varnargarðanna við Svartsengi. Búið er að loka gati í varnargarðinum auk þess sem búið er að loka Bláa lóninu.

Síðustu daga hefur hraun runnið hægt norðan við og meðfram Sýlingarfelli í átt að Grindavíkurvegi. Í tilkynningu frá Veðurstofunnui segir að í morgun hafi framskriðið aukist og ljóst sé að hraunstraumurinn renni ákveðið í átt að Grindavíkurvegi norðan varnargarða við Svartsengi.

„Stutt er í að hraunið renni yfir Grindavíkurveg og er verið að loka varnargarði þar og búið að loka Bláa Lóninu,“ segir í tilkynningunni.

Áætlað að allir hafi yfirgefið svæðið um hádegi

Í samtali við fréttastofu segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-markaðs-og vöruþróunarsviðs Bláa lónsins, að vegna stöðunnar hafi verið tekin ákvörðun um að opna ekki í morgun. Áætlað sé að gestir hótelsins auk starfsfólks hafi allir yfirgefið svæðið í kringum hádegisbil. 

Hraun hefur runnið yfir Grindavíkurveg í nokkur skipti í eldgosum undanfarin ár.Vísir/Vilhelm

Í gærmorgun tók hraunið að streyma úr barmi suðurhlíð gígsins.

Hér fyrir neðan má sjá vefmyndavélar Vísis sem eru staðsettar á svæðinu í kringum Sundhnúksgígaröðina.

Uppfært klukkan 10:20.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna segir viðbragðsaðila á staðnum fylgjast grannt með stöðunni. Búið sé að loka gati í varnargarðinum við Grindavík sem hafði verið haldið opnu vegna samgangna. Þá sé hætta á gróðureldum á svæðinu og slökkviliðið í viðbragsðstöðu vegna þess. Aðeins sé tímaspursmál hvenær hraunið renni yfir Grindavíkurveg. 

Uppfært klukkan 10:40

Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu sem er á staðnum, staðfestir í samtali við fréttastofu að hraunið sé nú komið að Grindavíkurvegi. Nánar verður rætt við Jón Hauk í hádegisfréttum Bylgjunnar klukkan 12. 


Tengdar fréttir

Hraungígur brast í morgun

Hraun úr eldgosinu á Reykjanesskaga streymir úr barmi gígs sem brast um klukkan fimm í morgun. Hraunstreymið ógnar engum innviðum eins og stendur en grannt er fylgst með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×