Íslenski boltinn

Þrenna Krist­rúnar tryggði Þrótti fyrsta sigur tíma­bilsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristrún Rut Antonsdóttir skoraði þrennu fyrir Þrótt í dag.
Kristrún Rut Antonsdóttir skoraði þrennu fyrir Þrótt í dag. Vísir/Anton Brink

Kristrún Rut Antonsdóttir var allt í öllu í liði Þróttar er liðið vann sinn fyrsta deildarsigur á tímabilinu. Hún skoraði þrennu er liðið lagði Tindastól 4-2.

Það voru þó gestirnir frá Sauðárkróki sem byrjuðu leikinn betur og Jordyn Rhodes kom Tindastóli yfir strax á tíundu mínútu.

Freyja Karín Þorvarðardóttir jafnaði þó metin fyrir heimakonur á 25. mínútu áður en Kristrún kom Þrótti yfir fimm mínútum síðar með snyrtilegu marki og staðan í hálfleik því 2-1.

Kristrún var svo aftur á ferðinni snemma í síðari hálfleik þegar hún kom Þrótti í 3-1 eftir hornspyrnu frá Sæunni Björnsdóttur, en Birgitta Rún Finnbogadóttir minnkaði muninn fyrir Tindastól á 74. mínútu eftir klaufagang í vörn Þróttar.

Heimakonur voru þó ekki lengi að svara því Kristrún fullkomnaði þrennu sína aðeins rétt rúmri mínútu síðar og tryggði Þrótti um leið sinn fyrsta deildarsigur á tímabilinu.

Þrátt fyrir sigurinn situr Þróttur enn í neðsta sæti deildarinnar, nú með fjögur stig eftir sjö leiki. Tindastóll situr hins vegar í sjöunda sæti með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×