Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki viljað staðfesta að mál sé til rannsóknar sem tengist umræddum togara. Í samtali við fréttastofu segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn þó, að lögregla hafi kynferðisbrot til rannsóknar, þrír hafi verið handteknir í tengslum við rannsókn þess máls og þeir yfirheyrðir en hafi nú verið sleppt. Þá sé ekkert skip kyrrset í tengslum við rannsóknina. Að öðru leyti verst lögregla fregna af málinu.
Uppfært klukkan 12:04
Tilkynning hefur borist frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins. Tilkynninguna í heild sinni má sjá hér að neðan.
„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú meint kynferðisbrot í Hafnarfirði á laugardag, en tilkynning um málið barst lögreglu á áttunda tímanum í gærmorgun. Málið var strax tekið mjög alvarlega og voru viðbrögð lögreglu eftir því, en í upphafi voru málsatvik um margt óljós. Þrír voru handteknir í þágu rannsóknarinnar, en þeim var síðan sleppt að loknum yfirheyrslum.
Rannsókn málsins er áfram í fullum gangi en ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.
Minnt er á að það er ekki venjan að embættið tjái sig um rannsóknir einstakra kynferðisbrota á frumstigi rannsóknar og tekur þessi tilkynning mið af því.“