Innlent

Tveir fluttir á sjúkra­hús: Þriðja útkallið á einum sólar­hring

Árni Sæberg skrifar
Þyrla gæslunnar. Myndin er úr safni.
Þyrla gæslunnar. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út að beiðni Lögreglunnar á Vesturlandi í kvöld vegna umferðarslyss á þjóðvegi 1 við Hraunsnef í Borgarfirði. Tveir voru fluttir með þyrlunni, sem lenti við Landspítalann í Fossvogi um klukkan 22:15.

Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við Vísi. Mbl.is greindi fyrst frá. Ásgeir býr ekki yfir nánari upplýsingum um líðan þeirra slösuðu eða tildrög slyssins.

Í frétt Mbl.is er haft eftir Bjarna Þor­steins­syni, varaslökkviliðsstjóra hjá Slökkviliði Borg­ar­byggðar, að fólks­bíll og jeppi hafi lent í árekstri með alls þrjá innanborðs.

Þrjú útköll síðasta sólarhringinn

Útkallið er það þriðja sem þyrlusveitin sinnir á innan við 24 klukkustundum. Í gærkvöldi voru tveir slasaðir fluttir eftir að fólksbíll valt skammt frá Kirkjubæjarklaustri.

Þá var göngumaður sóttur á Heljarkamb á Fimmvörðuhálsi í dag eftir að hafa lent í sjálfheldu. Maðurinn hlaut minniháttar meiðsli en enginn önnur leið var að manninum en með þyrlu.

Annasamasti tími ársins

Ásgeir segir að nokkuð hafi mætt á þyrlusveitinni undanfarinn sólarhring en álagið sé þó ekki það mesta á allra síðustu dögum. Aukin tíðni útkalla fylgi því að sumarið gengur í garð og það hafi verið annasamasti tími ársins fyrir þyrlusveitina.

Þá hafi útköllum stöðugt farið fjölgandi síðustu árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×