Innlent

Inga vill helst fjár­mála­ráðu­neytið

Jón Þór Stefánsson skrifar
Inga Sæland er spennt fyrir fjármálaráðuneytinu.
Inga Sæland er spennt fyrir fjármálaráðuneytinu. Vísir/Arnar

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir að hún myndi helst vilja fara í fjármálaráðuneytið fengi hún að velja á milli allra mögulegra ráðuneyta.

„Ég held að fjármálaráðuneytið hljóti að vera öflugast. Þó að félagsmálaráðuneytið sé það ráðuneyti sem ég ætti helst að taka utan um miðað við mínar hugsjónir og Flokks fólksins. Þá liggur það á borðinu að fjármálaráðuneytið er þess valdandi að það er auðveldara að útdeila fjármunum og tryggja það að verkefnin sem við þurfum að vinna eru unnin og það sé fjármagn að baki,“ sagði Inga í Bítinu á Bylgjunni á morgun.

Hún spáði því að ekki verði kosið seinna en næsta vor. „En mér þykir ótrúlegt að þau haldi út svo lengi.“

Þá sagðist Inga sjá fyrir sér að geta helst unnið með Samfylkingunni og Pírötum kæmist Flokkur fólksins í ríkisstjórn.

Inga segist finna fyrir miklum meðbyr um þessar mundir. Að hennar sögn eru skilaboð Flokks fólksins loksins að komast til skila.

„Ég hef aldrei fengið fleiri og fallegri kveðjur, hvatningar- og stuðningskveðjur. Það er næstum því eins og ég sé Ronaldo. Það er bara: áfram Inga og Flokkur fólksins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×