Með leyfinu er Hval hf. gert kleift að veiða 99 dýr á svæðinu Grænland/Vestur-Ísland og 29 dýr á svæðinu Austur-Ísland/Færeyjar. Í tilkynningu frá ráðherra segir að veiðimagn sé innan marka ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar frá 2017 og taki mið af varfærnum vistkerfisstuðlum Alþjóðahvalveiðiráðsins. Ákvörðunin byggi á varúðarnálgun og endurspeglar auknar áherslur stjórnvalda á sjálfbæra nýtingu auðlinda.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir leyfisveitinguna vera vonbrigði en skref í rétta átt.
„Hún fækkar umtalsvert þeim dýrum sem hægt er að veiða, 99 dýr. Hún veitir bara leyfi til eins árs eins og ég skil þetta. Þannig hún reynir að fara þarna einhvern milliveg. Svo er það að sjá hvort Kristján Loftsson telur þetta vera þess virði að halda þessu áfram. Bara leiðinlegt að geta ekki lokað á þetta, því miður. En svona er lífið,“ segir Árni.
Hann segir gott að leyfið gildi aðeins í eitt ár en ekki fimm til tíu ár líkt og forsvarsmenn Hvals hf. höfðu óskað eftir.
„Ég var að vona að hún myndi ekki veita leyfi. En ég vissi líka að hún væri undir gríðarlegum þrýstingi frá Sjálfstæðisflokknum sérstaklega. Maður veit aldrei hverju maður á von á, en þetta er ekki eins slæmt og hefur oft verið,“ segir Árni.