Þetta kom fram í ræðu Jóns í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag. „Þá er matvælaráðherra kominn undan feldi og búinn að tilkynna ákvörðun sína um hvalveiðar árið 2024 allt, alltof seint,“ sagði Jón. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði þegar hún tilkynnti ákvörðun sína að hún yrði að fara að lögum, þótt persónulegar skoðanir hennar á málinu væru ef til vill aðrar. Jón sagði að hún hefði mátt átta sig á þessu fyrr.
„Það blasir við að málsmeðferðin er engan veginn í samræmi við lög eða stjórnarskrá landsins. Umboðsmaður alþingis gerði skýra grein fyrir því í áliti sínu á síðasta ári um sambærilega málsmeðferð sem að annar ráðherra vinstri grænna viðhafði í sama máli,“ sagði Jón.
„Rökin sem hæstvirtur ráðherra færir fyrir langdreginni málsmeðferð standast enga skoðun. Hún vitnar til þess að 2019 hafi hvalveiðileyfi veirð gefið út í júlí. Þá var ekkert starfsleyfi í gildi fyrir verksmiðjuna og stóð ekki til að fara á veiðar, þannig þetta er auðvitað bara sögufölsun. Baráttan við MAST um starfsleyfi verksmiðjunnar tók þrjú ár, enn eitt dæmið um stjórnsýslu sem að er ekki til fyrirmyndar. Þá var loksins veitt varanlegt starfsleyfi,“ sagði Jón.
Jón segir þetta óþolandi hegðun gagnvart starfsfólki og fyrirtæki. „Ráðherra beitir síðan varfærinni, eins og hún kallar það, reiknireglu. Hún hunsar vísindamenn Hafrannsóknarstofnunnar. Hún notar reiknireglu sem að enginn annar notar, ekki meðal þjóða sem við erum í samstarfi við í Norður-Atlantshafs sjávarspendýraráðinu.“
Þetta veki upp þá spurningu hvort hún ætli að beita þessari reiknireglu við nýtingu annarra nytjastofna.
„Maður er, virðulegur forseti, alveg orðlaus yfir ósvífni ráðherrans gagnvart starfsfólki og fyrirtæki í þessu tilfelli. Það er allt gert, að því er virðist, af geðþótta og lítilli eða engri virðingu fyrir fólki, lögum eða stjórnarskrá. Slík stjórnsýsla, virðulegi forseti, er ólíðandi, þetta er ólíðandi misbeiting á valdi sem að ráðherra hefur,“ sagði Jón á Alþingi í dag.