Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
Morgnarnir eru ekki minn tími og ég hef ítrekað verið ásakaður af eiginkonunni að vera morgunfúll. Ég vísa þessum ásökunum þó til föðurhúsanna, hreyki mér af því að vera jafnlyndur og alltaf í góðu stuði, en viðurkenni að vera smástund í gang og jafvel pínulítið vankaður fyrstu mínútur dagsins.
Enda eru alltaf þrjú snooze stillt í vekjaraklukkunni.Svo er hægt að snooza snoozin, svo þetta geta verið sjö til átta hringingar á morgnana.“
Ég neyðist þó til að skríða á fætur um korter yfir sjö til að gera sjálfan mig og börnin tvö tilbúin til vinnu, skóla og leikskóla. Hér er mikilvægt að gera ráð fyrir tímanum sem fer í að velja rétta dressið fyrir leikskóladaginn hjá þriggja ára prinsessunni, sem hefur sterkar skoðanir á tísku og mætir eins oft og hún getur í vel völdum glimmerkjól í leiskólann, þveröfugt við pabbann sem líður best í gamalli hettupeysu.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ekkert valkvætt dúllerí á morgnana hjá mér! En þegar ég er búinn að skutla krökkunum á sinn stað fæ ég rólega stund fyrir sjálfan mig í bílnum. Sakna þess þó stundum að hafa ekki gefið mér tíma í að hafa gott kaffi í kaffimáli, þar líð ég fyrir öll snooze-in, set vel valda tónlist í góð heyrnartól og lullast í hægðum mínum áfram í morgunumferðinni við ljúfa tóna.
Þessa vikuna hefur það verið nýjasti lagalistinn frá Baggalúti, enda mikilvægt að undirbúa sig fyrir tónleikana með Baggalúti og sinfó um helgina.
Annars er Blink-182 almennt aðal númerið og ég viðurkenni að hlusta við á við á eina lagið sem ég hef sjálfur gefið út, Light up með Sirka 0, sem ég er ofboðslega stoltur af og finnst flottara því oftar sem ég hlusta á það. Er þó enginn tónlistarmaður, en lagið var brúðkaupsgjöf til konunnar. Mér fannst ég skulda henni eitthvað rómó eftir að hafa oftar en ekki klúðrað blóma- og konfektmálum á konudeginum og svona allt frá upphafi sambandsins, þrátt fyrir að vera allur af vilja gerður.“
Á skalanum 1-10: Hversu heppinn ertu með veður í ferðalögum um Ísland?
„Ætli tölfræðingurinn í mér verði ekki að álykta að ég sé bara einhversstaðar í miðjunni, 5.5? Maður hefur upplifað allt frá því að krakkarnir séu úti á nærbuxunum klukkan 23 í það að geta varla opnað bílhurðina í rokinu. Ég er þó nokkuð í að elta veðrið og í slæmum veðrum er bara kósý að spila borðspil uppi í bústað, svo ég get unað mér í öllum veðrum, þannig.
Ég er samt tiltölulega óundirbúinn og kærulaus túristi og get yfirleitt sjálfum mér um kennt þegar ég lendi í bobba á ferðalögum. Dæmi um það er að við keyrðum á Yarisnum um verri veginn nærri Dettifossi í miðjum vegaframkvæmdum, versta ástand á vegi sem ég hef upplifað hingað til. Auðvitað sprakk á bílnum, enda Yarisnum ekki ætlað í torfæru, og enginn skiptilykill eða hvað það heitir í skottinu.
Eftir langa bið í óbyggðunum komu þó blessunarlega japanskir ferðalangar og lánuðu okkur lykilinn sinn, sem við skiluðum svo ásamt konfekti og freyðivíni upp á hótel til þeirra um kvöldið, meyr og mjúk af þakklæti.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Stafræn umbreyting! Eru ekki allir í því? Burt með allan pappír og öll þessi Excelskjöl, allt í BI, sítengingu og sjálfvirkni.
Þó þetta sé mikil vinna til að byrja með þá er þetta fljótt að borga sig upp, sparar mikinn tíma í innslátt og greiningarvinnu og gefur stjórnendum betri upplýsingar, hraðar. Þannig eykst snerpan okkar, stjórnendur fá betri upplýsingar, taka þar af leiðandi betri ákvarðanir og búmm – blómstrandi bisniss.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Skrifa niður það sem þarf að gera? Í grunninn er TO DO listanum skipt í þrennt: A.S.A.P og boltinn hjá mér, boltinn annars staðar og ég í biðstöðu, og svo ‚nice to have‘, sem maður kemst nú sjaldnast í. Ég held þó að það sé bara jákvætt, það knýr mann líka til að forgansraða rétt og bæta skilvirknina á þessum takmarkaða tíma sem maður hefur. Ég vil hafa tempó, stuð og nóg að gera í vinnunni.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Fer ævinlega síðastur að sofa á heimilinu, en yfirleitt ekki mikið seinna en um miðnætti. Minn akkilesarhæll í þessu lífi er líklega kvöldmönsið, sem er ekki alltaf bara morgunkorn eða hrökkbrauð, ég á það til að elda heilu máltíðirnar þegar öll fjölskyldan er steinsofnuð: núðluréttur með rækjum, ommiletta með kjúklingi eða kjötsúpu. Þetta er mögulega ósiður sem er ekkert að hjálpa mér á morgnana, en mér finnst maturinn bragðast best í kvöldkyrrðinni.“