Innlent

Um tólf vopnuð út­köll lög­reglu og sérsveitar í hverri viku

Lovísa Arnardóttir skrifar
Sérsveitin ber alltaf vopn en ekki almenn lögregla.
Sérsveitin ber alltaf vopn en ekki almenn lögregla. Vísir/Vilhelm

Alls fór lögreglan á Íslandi í 180 útköll á síðasta ári þar sem hún þurfti að vopnast. Flest voru útköllin á höfuðborgarsvæðinu, eða alls 97. Sérsveitin fór í alls 461 vopnuð útköll á síðasta ári. Samanlagt eru það 558 útköll eða um 12 útköll á viku.

Um helmingur allra vopnaðra útkalla almennrar lögreglu voru á höfuðborgarsvæðinu. Næstflest voru þau svo á Suðurnesjum og Norðurlandi eystra þar sem þau voru í heildina 48, 24 í hvoru umdæmi. Lögreglan fór þannig í um þrjú útköll á viku þar sem almenn lögregla þurfti að vopnast.

Fæst vopnuð útköll voru í Vestmannaeyjum og Norðurlandi vestra þar sem aðeins var um að ræða eitt vopnað útkall í fyrra. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Njáls Trausta Friðbertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Í svari dómsmálaráðherra er birt tölfræði um vopnuð útköll almennrar lögreglu allt til ársins 2016 og má sjá að þeim hefur fjölgað í flestum embættum eða staðið í stað. Á höfuðborgarsvæðinu hefur þeim fjölgað úr alls fjórtán árið 2016 í 97 í fyrra.

Á Suðurnesjum fækkaði þeim verulega en byrjaði svo að fjölga aftur í fyrra. Á Norðurlandi eystra fjölgaði þeim verulega en þar höfðu þau ekki verið fleiri en tíu öll árin en urðu svo 24 í fyrra.

Á Suðurlandi voru þau alls 15 í fyrra en hafa þó aldrei verið svo mörg þar. Mest hafa þau verið tíu árið 2021. Á Austurlandi voru þau svo átta í fyrra en voru flest þrjú árið 2021. Á Vestfjörðum voru þau alls fimm en voru fyrir það mest tvö.

Í svari dómsmálaráðherra er líka farið yfir fjölda vopnaðra útkalla sérsveitar ríkislögreglustjóra. Þeim hefur einnig fjölgað verulega. Í fyrra voru þau alls 461 en voru 50 árið 2013. Það eru um átta útköll á viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×