Þrír voru handteknir í aðgerðinni á Laugavegi fyrr í dag. Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn hjá miðlægri deild lögreglunnar sagði aðgerðirnar tengjast gruni um vinnumansal á staðnum. Með lögreglu var starfsmaður Skattsins, auk fíkniefnaleitarhunda.
Zakaria, sem er eigandi staðarins, er hins vegar staddur í Aþenu í Grikklandi og kom af fjöllum þegar hann frétti af aðgerðunum.
„Mínir fáu starfsmenn hafa unnið þarna í nokkur ár án vandræða. Þetta eru venjulegir starfsmenn. En ég veit ekki hvaða afskipti lögreglan vill hafa af þeim,“ segir Zakaria í samtali við fréttastofu.
„Ég hef ekkert gert sem er í andstöðu við lög. Lögreglan hefur ekkert svarað mér og skýrt þessar aðgerðir. Ég hef reynt en það er eitthvað skrýtið á seyði. Ég hef aldrei upplifað annað eins. Ég hef rekið þrjá veitingastaði, núna aðeins einn á Laugarvegi og allt gengið vel.“
Hann undrast einnig notkun lögreglunnar á fíkniefnaleitarhundum sem notaðir voru við aðgerðirnar.
„Erum við einhver mafía? Við búum á Íslandi,“ segir Zakaria.