Óskar Steinn Ómarsson starfsmaður Hamarsins til fimm ára hefur sagt að áform Hafnarfjarðarbæjar um framtíð ungmennastarfs í bænum hafi verið gerð án nokkurs samráðs við starfsmenn eða ungmenni og hefur kallað vinnubrögð bæjaryfirvalda óvönduð og ólýðræðisleg.
Stefán Pálsson sagnfræðingur segir glötuðustu frétt vikunnar fundna og að það sé engin samkeppni. Hann hafi síðasta vetur verið í starfshópi á vegum Reykjavíkurborgar til að fjalla um málefni Hins hússins og ungmennastarf í höfuðborginni og að starf Hamarsins hafi verið til fyrirmyndar.
„Ég ætla að fullyrða að mest spennandi verkefnið sem við kynntum okkur var Hamarinn í Hafnarfirði enda fór það svo að við létum ekki nægja eina heldur tvær kynningar frá Margréti Gauju á því frábæra starfi sem þar hefur átt sér stað. Einkum horfðum við til vinnu þeirra með ungmennum af erlendum uppruna og veltum því fyrir okkur hvernig útvíkka mætti það fyrir allt höfuðborgarsvæðið,“ skrifar Stefán í færslu sem hann birti á Facebook í gær.
Hann segir Ísland hafa orðið „pínkulítið lélegra og leiðinlegra“ við þessar fréttir.