Þegar Ingveldur var spurð hvort þetta þýddi að Sigurður Ingi hygðist ekki undirrita samninginn svaraði hún að hann myndi sennilega undirrita hann á endanum. En það væri þó óvíst hvort hann myndi undirrita hann að óbreyttu eða hvort hann myndi óska eftir breytingum.
Í frétt Vísis í morgun var vitnað í frétt héraðsmiðilsins Austurfréttar af umræðum í sveitarstjórn Múlaþings í vikunni og málið sagt sérlega vandræðalegt fyrir þingmenn Framsóknarflokks og Vinstri grænna í kjördæminu, þær Ingibjörgu Isaksen og Jódísi Skúladóttur, sem báðar höfðu opinberlega skrifað gegn gjaldheimtunni og kallað hana landsbyggðarskatt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórn hefðu bent á að þjónstusamningurinn við Isavia hafi verið gerður í leyni á sama tíma og fyrir lá lögfræðiálit þar sem efast var um lögmæti gjaldtökunnar. Sérstakt væri að á sama tíma og þingmenn lýstu andstöðu sinni við bílastæðagjöldin skrifuðu ráðherrar úr flokkum þeirra undir samninginn.