Starfið hjá Keflavík markar endurkomu Friðriks Inga í þjálfun en hann hefur ekki þjálfað lið síðan árið 2022. Fyrir því er gild ástæða en Friðrik og fjölskylda hans fengu á sínum tíma í hendurnar ógnarstórt verkefni þegar að eiginkona hans og lífsförunautur til þrjátíu og fimm ára, Anna Þórunn Sigurjónsdóttir greindist með krabbamein.
Á stundum sem þessum verður lífið mun meira og stærra en körfubolti eða íþróttir og stóðu Friðrik Ingi og börnin þeirra tvö þétt við bakið á sinni konu. Eftir hetjulega baráttu við meinið kvaddi Anna Þórunn þessa jarðvist á síðasta ári.
Svona lífsreynsla, viðlíka áfall, hefur áhrif á fólk. Aðstæður breytast og Friðrik finnur það nú að hann er ekki reiðubúinn að gefa körfuboltann upp á bátinn. Það er eitthvað sem togar í hann.
„Einhver yngri útgáfa af mér sem hefur svolítið verið að tala í gegnum mig. Ég svona fer aðeins af sjónarsviðinu eftir að hafa verið með ÍR fyrir tveimur árum síðan. Það komu upp veikindi í fjölskyldunni sem að reyndu svolítið á. Ég þurfti að neita nokkrum liðum sem að leituðu til mín á síðastliðnu tveimur árum þar sem að aðstæður voru bara þannig. Þær voru bara mjög erfiðar og krefjandi.“
„Svo hafa ýmsir fagaðilar, sem ég hef leitað til í minni leit að nýju og breyttu lífi, skorað á mig og sagt mér að það gæti verið mjög gott fyrir mig að láta slag standa og fara aftur í þjálfun. Að því gefnu að ég hafi enn brennandi áhuga og vilja. Hann hefur aldrei horfið í rauninni. Ég er því bara gríðarlega spenntur fyrir því að takast á við þetta verkefni.“
Körfuboltinn hefur aldrei verið langt undan hjá Friðriki.
„Ég byrjaði að þjálfa sextán ára gamall. Er 55 ára í dag, 56 ára eftir nokkra daga. Körfuboltinn hefur verið stór hluti af mínu lífi. Ég hef þjálfað bæði karla og kvennaflokka. Ég þjálfaði líka handbolta á mínum yngri árum. Þjálfarinn er mjög ríkur í mér.
Það er auðvitað bara þannig að það er erfitt að slíta sig frá þessu. Hausinn á mér er yfirleitt alltaf uppfullur af hugmyndum og pælingum. Þegar að ég horfi á körfubolta þá er hausinn á mér alltaf á fullu að pæla í alls konar taktík og pælingum. Ég hef í rauninni verið þess heiðurs aðnjótandi að vera talsvert innvinklaður í boltann.
Vegna þess að það eru margir þjálfarar sem eru að þjálfa í efstu deildum karla og kvenna sem eru ýmist fyrrverandi leikmenn mínir eða aðstoðarþjálfarar. Ég er auðvitað mjög þakklátur fyrir það að þeir leita talsvert til mín. Ég reyni að vera þeim til halds og trausts eins og ég mögulega get.“