Fótbolti

Kossaskandall Rubiales ekki fyrir rétt fyrr en í febrúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Rubiales sést hér kyssa Jennifer Hermoso á munninn í verðlaunaafhendingu HM 2023.
Luis Rubiales sést hér kyssa Jennifer Hermoso á munninn í verðlaunaafhendingu HM 2023. Getty/Noemi Llamas

Nú er ljóst að Luis Rubiales, fyrrum formaður spænska knattspyrnusambandsins, mætir ekki örlögum sínum fyrr en í febrúar á næsta ári.

Rubiales kemur fyrir rétt í febrúar 2025 þar sem ákæra á hendur honum verður tekin fyrir. Hún kemur til vegna hegðunar hans í verðlaunaafhendingu heimsmeistaramóts kvenna á síðasta ári.

Rubiales var kærður fyrir kynferðisáreiti eftir að hafa kysst spænsku landsliðskonuna Jennifer Hermoso á muninn. Hún sagðist ekki hafa gefið nokkurt leyfi fyrir slíkum kossi.

Málið varð að miklu fjölmiðlafári og setti stóran skugga á heimsmeistaratitil spænsku landsliðskvennanna.

Rubiales var í framhaldinu þvingaður til að segja af sér en sjálfur ætlaði hann sér í fyrstu að sitja sem fastast.

AFP fréttastofan segir að málinu hafi nú verið frestað þar til í febrúar en réttarhöldin fara fram frá 3. til 19. febrúar 2025.

Formleg ákæra var sett saman í janúar og dómari í spænska réttinum ákvað það í maí að málið gegn Rubiales og þremur öðrum starfsmönnum spænska sambandsins fari fyrir rétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×