Sport

Á­tján ára strákur sem átti að keppa á ÓL í sumar lést í slysi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jackson James Rice þótti líklegur til afreka í brimbrettakeppni Ólympíuleikanna í ár.
Jackson James Rice þótti líklegur til afreka í brimbrettakeppni Ólympíuleikanna í ár. Instagram/Jackson James Rice

Brimbrettastrákurinn Jackson James Rice átti að keppa á Ólympíuleikunum í París í sumar en því miður verður ekkert af því.

Hinn átján ára gamli Rice lést af slysförum um helgina. Slysið varð þegar hann var við dýfingar af báti.

Hann missti meðvitund við lendingu í vatninu og ekki tókst að lífga hann við eftir að hann fannst meðvitundarlaus undir bátnum.

Rice átti að keppa fyrir landslið Tonga á leikunum í júlí og ágúst en brimbrettakeppni leikanna fer fram við Tahítí eyju í Frönsku Pólýnesíu í Kyrrahafi.

„Ég átti besta bróður í öllum heiminum og það er mjög sárt að þurfa að segja frá því að hann sé farinn frá okkur,“ skrifaði Lily systir hans á samfélagsmiðla.

„Hann var svo ótrúlega góður á brimbrettinu og við vorum sannfærð um það að hann myndi koma heim frá Ólympíuleikunum með skínandi verðlaunapening um hálsinn. Hann átti líka svo marga ótrúlega vini út um allan heim,“ skrifaði Lily.

Rice ólst upp á Tonga þar sem foreldrar hans reka ferðaþjónustu. Foreldrar hans eru Bretar en hann fæddist í Bandaríkjunum. Hann leit þó alltaf á sig sem Tongverja. Hann hefði orðið fyrsti hvíti maðurinn til að keppa fyrir Tonga á Ólympíuleikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×