Sport

Ein sú besta í heimi velur heilsuna yfir Ólympíu­leikana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aryna Sabalenka var með á síðustu Ólympíuleikum en féll þá út í annarri umferð. Hún verður orðin þrítug þegar Ólympíuleikarnir fara fram í Los Angeles árið 2028.
Aryna Sabalenka var með á síðustu Ólympíuleikum en féll þá út í annarri umferð. Hún verður orðin þrítug þegar Ólympíuleikarnir fara fram í Los Angeles árið 2028. Getty/Robert Prange

Aryna Sabalenka mun ekki taka þátt í Ólympíuleikunum í París í sumar en hún er númer þrjú á heimslistanum í tennis.

Sabalenka gaf þetta út þrátt fyrir að hún eigi enn eftir að keppa á mótum áður en kemur að sjálfum Ólympíuleikunum.

Þessi 26 ára gamla tenniskona frá Hvíta-Rússlandi vann Opna ástralska risamótið í janúar. Hún datt á dögunum út úr átta manna úrslitunum á Opna franska meistaramótinu á móti rússneska táningnum Mirru Andreevu.

Það var í fyrsta sinn sem Sabalenka komst ekki í undanúrslit á risamóti síðan á Opna franska meistaramótinu árið 2022.

Tenniskeppni Ólympíuleikanna fer fram á völlunum á Roland Garros frá 27. júlí til 4. ágúst. Opna bandaríska meistaramótið hefst síðan 22 dögum síðar.

„Ég vil frekar fá hvíldina til að passa upp á það að ég sé bæði líkamlega klár og hafi heilsu til að keppa á hörðu völlunum,“ sagði Aryna Sabalenka en Opna bandaríska meistaramótið fer fram á hörðu undirlagi.

„Ekki síst vegna allra vandræðanna sem ég hef glímt við síðustu mánuði. Mér finnst ég þurfa að hugsa um heilsuna mína,“ sagði Sabalenka.

Íþróttafólk frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi þarf að keppa sem hlutlaus aðili á leikunum en fá ekki að keppa undir merkjum þjóðar sinnar. Það eru refsiaðgerðir vegna innrásar Rússlands í Úkraínu.

Sabalenka mun keppa í Berlín til að undirbúa sig fyrir Wimbledon risamótið sem fer fram áður en kemur að Ólympíuleikunum í París í lok næsta mánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×