Skoðun

Notkun bóluefna veldur ekki ein­hverfu

Magnús Lyngdal Magnússon skrifar

Enn á ný eru komnar á kreik vangaveltur um „hugsanlegt orsakasamband“ notkunar bóluefna og einhverfu en það var árið 1998 sem „rannsókn“ birtist í hinu virta og ritrýnda vísindatímariti The Lancet þar sem Andrew Wakefield taldi sig geta sýnt fram á tengsl notkunar á bóluefnum (MMR) og einhverfu. Wakefield hafði hins vegar vísvitandi átt við gögnin og niðurstöður hans voru því falsaðar. Allar rannsóknir síðan þá sýna fram á að það eru engin tengsl milli bóluefna og einhverfu (t.d. síðast rannsókn í Danmörku árið 2019).

Það hefur aftur á móti ekki dugað til að kveða niður samsæriskenningar. Ein slík birtist í Morgunblaðinu í dag (í aðsendri grein) þar sem meðal annars kemur fram að „stöðug fjölgun einhverfra“ hér á landi um áratuga skeið hafi „ekki verið skýrð með trúverðugum hætti.“ Höfundar telja hins vegar að Ísland sé í „aðstöðu til að brjóta blað í sögu læknisfræðinnar. Það er að kveða upp úr með rannsókn um hugsanlegt orsakasamband á milli barnabólusetninganna og einhverfu.“ Það er ekkert orsakasamband og það er margoft búið að sýna fram á það með óyggjandi hætti. Hins vegar hafa greiningaraðferðir einhverfu batnað mikið á síðustu áratugum.

Það hefur hins vegar ekki nægt til þess að vinna bug á lygum Wakefields. Hann var sviptur lækningaleyfi þegar svikin komust upp en skaðinn var skeður. Auðvitað olli þetta miklu tjóni og særindum, ekki hvað síst hjá þeim sem eru á einhverfurófi og fjölskyldum þeirra.

Læknaprófessorinn Michael Davidson orðað þetta svona greininni Vaccination as a cause of autism—myths and controversies (Dialogues Clin Neurosci. 2017): „Myths that vaccines or mercury are associated with autism have been amplified by misguided scientists; frustrated, but effective parent groups; and politicians. Preventing the protection provided by vaccination or administration of mercury-chelating agents may cause real damage to autistic individuals and to innocent bystanders who as a result may be exposed to resurgent diseases that had already been “extinguished“.

Að sögn landlæknis eru bólusetningar gegn smitsjúkdómum ein „farsælasta og hagkvæmasta lýðheilsuaðgerðin sem er notuð í heiminum.“ Minni þátttaka í bólusetningum, það er að segja þegar hún fer undir viðmiðunarmörk, eykur hættu á að sjúkdómar breiðist út, t.d. mislingar. Þannig dalaði til að mynda árin 2021 og 2021 þátttaka í „seinni skammti MMR bólusetninga gegn mislinum hér á landi og var þátttakan undir 90% bæði árin“ (Þátttaka í almennum bólusetningum, 30 apríl 2024). Ekki lítur út fyrir að árið 2023 hafi verið betra.

Bólusetningar draga mjög úr hættu á að veikjast alvarlega eða dreifa sjúkdómi og það eru engin tengsl milli notkunar bólusetninga og einhverfu.

Höfundur er sagnfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×