Fótbolti

Magni Fann­berg ráðinn til Norr­köping

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Magni Fannberg er kominn til Svíþjóðar á nýjan leik.
Magni Fannberg er kominn til Svíþjóðar á nýjan leik. Norrköping

Magni Fannberg hefur verið ráðinn til Norrköping í sænsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Um er að ræða mikið Íslendingafélag en þeir Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson spila með liðinu.

Hinn 44 ára gamli Magni Fannberg Magnússon hefur starfað erlendis frá árinu 2011 en hann er ráðinn til Norrköping sem íþróttaráðgjafi. Hann starfaði síðast hjá norska liðinu Start en lét af störfum þar seint á síðasta ári.

Magni var fyrr í dag kynntur til leiks á vefsíðu Norrköping en þar segir að hann hafi mikla reynslu þegar komi að þróun ungra leikmanna, eitthvað sem Norrköping hefur verið þekkt fyrir undanfarin ár.

Magni mun aðstoða við uppsetningu leikmannahóps félagsins, tengja aðalliðið enn betur við akademíu félagsins og vera íþróttastjóra félagsins, Tony Martinsson, innan handar.

Norrköping hefur byrjað tímabilið illa í Svíþjóð og er aðeins stigi fyrir ofan fallsæti að loknum 12 umferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×