Erlent

Kim lýsir yfir af­dráttar­lausum stuðningi við stríð Rússa í Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sýnt frá fundum Kim og Pútín á lestarstöð í Seúl í Suður-Kóreu.
Sýnt frá fundum Kim og Pútín á lestarstöð í Seúl í Suður-Kóreu. AP/Ahn Young-joon

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur lýst yfir afdráttarlausum stuðningi við hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu. Vladimir Pútín Rússlandsforseti er staddur í opinberri heimsókn í Pyongyang.

Leiðtogarnir eru sagðir hafa undirritað nýjan og yfirgripsmikinn sáttmála um samstarf ríkjanna, sem mun koma í stað eldri sáttmála. Að sögn Yuri Ushakov, aðstoðarmanns Pútín, virðir sáttmálinn alþjóðalög og fjallar ekki um aðgerðir gegn einstaka ríkjum.

Markmiðið með sáttmálanum sé að stuðla að auknum stöðugleika.

Leiðtogarnir áttu um tveggja tíma fund í morgun ásamt öðrum ráðamönnum en greint var frá því að honum loknum myndu þeir ræða einstaka mál undir fjögur augu. Á opna fundinum talaði Kim um nýjan kafla í samskiptum ríkjanna og lofaði Rússa fyrir að viðhalda jafnvægi á alþjóðasviðinu.

Pútín er sagður hafa komið færandi hendi til Pyongyang og gefið Kim Aurus bifreið, rýting og tesett. Á hann enda gjöf að gjalda en Bandaríkjamenn segja Rússa hafa reitt sig á skotfæri frá Norður-Kóreu í stríðsrekstri sínum í Úkraínu.

Rússlandsforseti mun halda frá Pyongyang til Hanoi, þar sem hann mun eiga viðræður við leiðtoga Víetnam um aukið samstarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×