Innlent

Hætta hraunkælingu og meta stöðuna í dag

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hraunspýja teygði sig yfir varnargarðinn við Svartsengi í gærkvöldi.
Hraunspýja teygði sig yfir varnargarðinn við Svartsengi í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm

Slökkviliðsmenn í Grindavík hafa hætt að dæla vatni yfir hraunið sem teygði sig upp yfir varnargarðinn við Svartsengi. Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna segir fyrsta hraunkælingaraðgerð frá Heimaeyjargosinu hafa verið tilraun en að þegar hafi verið búið að stöðva framgang hraunsins.

Hjördís segir að hraunspýjan hafi verið stöðvuð strax klukkan sjö í gærkvöldi með hjálp vinnuvéla en að ákveðið hafi verið að prófa þann búnað sem viðbragðsaðilar hafa undir höndum til að hindra hraunrennsli.

Yfirvöld hafi ákveðið að festa kaup á nýjum búnaði sem er sérstaklega ætlaður hraunkælingu og gróðureldum og er talsvert öflugri en búnaðurinn sem notaður varí nótt.

„Það sem gerðist í gærkvöldi var að ákveðið var að prófa þann búnað sem er til og sjá hvað hægt var að gera með hann. Þeir hættu að sprauta í nótt. Svo verður staðan endurmetin og séð hvað gekk vel og hvað gekk ekki,“ segir Hjördís.

„Það var alltaf farið út í þetta með það fyrir augum að það var búið að stoppa þessa spýju,“ bætir hún við.

Of snemmt sé að segja til um hver lærdómur þessarar tilraunar var en það verður metið í dag að sögn Hjördísar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×