Upp­gjörið: Breiða­blik - KA 2-1 | Blikar nálgast topp­sætið en KA situr á­fram á botninum

Sverrir Mar Smárason skrifar
Viktor Karl Einarsson hefur verið frábær í sumar.
Viktor Karl Einarsson hefur verið frábær í sumar. Vísir/Diego

Breiðablik vann 2-1 gegn KA í lokaleik 10. umferðar Bestu deildar karla. Eftir sigurinn er Breiðablik aðeins einu stigi frá toppliði Víkings. Gestirnir í KA sitja sem fastast á botni deildarinnar.

Leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið, þó á sitthvorum enda deildarinnar. KA neðstir eftir úrslit gærkvöldins og fyrir leik fimm stigum frá öruggu sæti. Breiðablik hins vegar í dauðafæri á að minnka forskot Víkinga á toppi deildarinnar í aðeins eitt stig.

Fyrir leikinn var Andri Yeoman, leikmaður Blika, heiðraður fyrir 450 leiki spilaða. Kári Ársælsson, fyrirliði Blika þegar Andri lék sinn fyrsta leik, afhenti honum viðurkenningu.

Andri Yeoman heiðraður fyrir leik.Vísir/ Pawel

Eins og flestir bjuggust við voru Blikar meira með boltann í fyrri hálfleiknum sem var þó ansi lokaður heilt yfir. Fyrstu 20 mínúturnar þjörmuðu heimamenn að KA en um miðjan fyrri hálfleik tókst KA nánast alveg að loka á sóknaraðgerðir Blika.

Allt leit út fyrir að staðan yrði markalaus í hálfleik en á 43. mínútu gerðist það sem ungur leikmaður gleymir seint en lærir líklega hvað mest af. Aron Bjarnason fékk þá óvænt sendingu inn fyrir vörn KA og renndi boltanum fyrir markið. Þar var aleinn Kári Gautason, varnarmaður KA, sem virtist missa einbeitinguna í smá stressi því hann þrusaði boltanum í eigið net. Blikar 1-0 yfir í hálfleik, alls ekki sannfærandi þó.

Eftir mistök er gott að eiga einn Stubb til þess að peppa sig áfram.Vísir/ Pawel

Gestirnir komu grimmir og ferskir út í síðari hálfleikinn á meðan Blikarnir voru eitthvað sofandi fram eftir síðari hálfleik. KA jafnaði metin með marki frá Hallgrími Mar á 51. mínútu eftir samleik Hallgríms og Harley Willard.

KA hafði tökin þangað til um miðjan síðari hálfleik en líkt og áður segir voru Blikar voða ólíkir sjálfum sér, lítil ákefð og virkuðu þreyttir. Stuttu eftir jöfnunarmarkið gat Ásgeir Sigurgeirsson komið KA í 2-1 þegar hann fékk dauðafæri á markteig en skot hans yfir markið.

Heimamenn náðu þó að ranka við sér og komust aftur yfir á 74. mínútu. Aron Bjarnason sólaði sig þá inn í teig KA og lagði boltann fyrir markið. Boltinn fór af varnarmanni og út á Viktor Karl sem dansaði frábærlega framhjá varnarmönnum KA áður en hann renndi boltanum í netið.

Viktor Karl fagnar marki sínu í kvöld.Vísir/ Pawel

Norðanmenn reyndu hvað þeir gátu að jafna metin og besta færið fékk Viðar Örn Kjartansson á loka mínútu leiksins þegar hann slapp einn gegn Antoni Ara en skotið laust og beint á Anton. Lokatölur 2-1 og Blikar aðeins einu stigi frá Víkingum á meðan KA situr eftir á botni deildarinnar.

Atvik leiksins

Það eru eiginlega tvö svipað stór. Fyrst auðvitað sjálfsmark Kára Gautasonar sem kom Blikum yfir. Afar óheppilegt hjá drengnum unga.

Svo færið sem Ásgeir fær á 56. mínútu. Miðað við hvernig Blikar spiluðu á þeim tímapunkti þá hefði annað mark getað rotað þá alveg. Ásgeir skaut yfir og að lokum tóku heimamenn sigurinn.

Stjörnur og Skúrkar

Stjörnur leiksins að mínu mati koma úr sitthvoru liðinu. Aron Bjarnason var mjög hættulegur í liði Blika og lagði upp bæði mörkin. Átti fullt af sprettum og sendingum inn í teig KA og lét hafa fyrir sér.

Ívar Örn Árnason var frábær í hjarta varnarinnar hjá KA. Steig ekki feilspor, varði þrjú eða fjögur skot með því að kasta sér fyrir og þar á meðal eitt á línu. Lagði líf sitt og sál undir í kvöld.

Ofboðslega erfitt að henda ungum dreng undir rútuna sem skúrk en hann er byrjunarliðsmaður í liðinu og þarf að fá gagnrýni eins og aðrir. Kári Gautason var í brasi í dag. Bæði með boltann og varnarlega. Lærir af þessu eins og áður hefur komið fram.

Aron Bjarnason var frábær í liði Blika í kvöld.Vísir/ Pawel

Dómarinn

Erlendur var með góða stjórn á þessum leik. Ég man ekki eftir atviki sem ég var ósammála honum að neinu viti. Hefur átt slæma leiki í sumar en þetta var ekki einn af þeim, gott dagsverk.

Erlendur Eiríksson dæmdi leikinn vel.Vísir/ Pawel

Stemning og umgjörð

Framan af var lítil sem engin stemning á vellinum. Það var ekki fyrr en eftir 40 mínútur sem fjölmiðlafulltrúin hóf hvatningarorð til blikanna sem eitthvað fór að heyrast. Þá kom markið og allt þagnaði aftur eftir það. Nokkrir gamlir skarfar sem spiluðu fótbolta fyrir 40-50 árum sem vilja að boltanum sé nelgt fram í hvert skipti sem láta í sér heyra. Þeir eru líka bestu dómararnir.

Alltaf gaman að koma á Kópavogsvöll þar sem vel er hugsað um allt og alla.

Viðtöl

Halldór Árnason: Þetta var ekki nægilega góður leikur

Halldór, þjálfari Blika, á hliðarlínunni í kvöld.Vísir/ Pawel

„Af undanskildum fyrstu 15 mínútunum, sem mér reyndar fannst frábærar, þá bara vorum við mjög daprir og orkulitlir. Einhvern vegin kraftlausir í dag. Þetta var svona dagur. Það hefði getað verið 3-0 eftir korter og þvílíkur kraftur í byrjun. Þú heldur þessu ekki allan leikinn en fallið var svolítið mikið. Við endum á að klára þennan leik en þetta var ekki nægilega góður leikur,“ sagði þjálfari Breiðabliks.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira