Viðskipti innlent

Tug­milljóna sekt og má ekki stunda rekstur

Árni Sæberg skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Sverri Halldór í tveggja ára atvinnurekstrarbann.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Sverri Halldór í tveggja ára atvinnurekstrarbann. Vísir/Vilhelm

Sverrir Halldór Ólafsson hefur verið dæmdur til tveggja ára skilorðsbundinnar fangelsisvistar og greiðslu 57 milljóna króna vegna stórfelldra skattalagabrota. Hann hefur keyrt sjö einkahlutafélög í þrot og hefur nú verið bannað að stunda atvinnurekstur í tvö ár.

Þetta var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kvað upp dóm yfir Sverri Halldóri þann 14. júní. Í dóminum segir að hann hafi verið ákærður fyrir skattalagabrót með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2018 til og með 2020, vegna tekjuáranna 2017 til og með 2019, með því að hafa vanframtalið tekjur að fjárhæð samtals 45.098.444 krónur. Með því hafi hann komist undan greiðslu tekjuskatts og útsvars að fjárhæð 19.735.580 krónur.

Hegningarauki við svæsnara brot

Sverrir Halldór hafi játað brot sín skýlaust og því hafi málið talist sannað og aðeins hafi þurft að ákvarða refsingu hans. Við þá ákvörðun hafi verið litið til játningar hans til refsimildunar en til þyngingar að hann hafi framið stórfelld brot sem náðu yfir langt tímabil.

Brot hans hafi verið framin fyrir uppkvaðningu annars dóms sem hann hlaut í nóvember árið 2022 og dómur nú því hegningarauki við fyrri dóm.

Árið 2022 hafi Sverrir Halldór verið dæmdur í átján mánaða fangelsi og til greiðslu 240 milljóna króna sektar fyrir stórfelld skattalagabrot. Refsing hans hafi verið hæfilega metin tveggja ára fangelsi og greiðsla 57 milljóna króna sektar, þreföld sú upphæð sem hann kom undan skatti.

Sjö félög farið á hausinn

Í dóminum segir að með breytingarlögum árið 2019 hafi sú breyting verið gerð almennum hegningarlögum lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög að heimilt yrði að úrskurða þá sem dæmdir hefðu verið sekir um brot gegn ákvæði almennra hegningarlaga um skattsvik í atvinnurekstrarbann, það er bann við því að stofna félag með takmarkaða ábyrgð félagsmanna, að sitja í stjórn, að starfa sem framkvæmdastjóri eða koma með öðrum hætti að stjórnun slíks félags eða fara með meirihluta atkvæðisréttar í því, í allt að þrjú ár.

Í greinargerð með ákvæðinu komi fram að markmiðið sé að vernda kröfuhafa og samfélagið í heild fyrir hættu á tapi vegna misnotkunar á hlutafélagaforminu.

Í gögnum málsins sé að finna að minnsta kosti sjö hlutafélög sem hafi verið stofnuð, flest á árinu 2019, sem Sverrir Halldór hafi komið að sem stofnandi og/eða fyrirsvarsmaður. Öll þessi félög hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta og í öllum tilvikum sé um að ræða greiðslur frá umræddum félögum til Sverris Halldórs sem hafi verið vanframtaldar, auk þess sem hann hafi verið sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri fjögurra þessara félaga. 

Þrátt fyrir að um heimildarákvæði sé að ræða sem beita verði að nokkurri varúð verði ekki horft framhjá því að Sverrir Halldór hafi hagnýtt sér hlutafélagformiðtil þess að misfara með verulegar fjárhæðir. Með hliðsjón af atvikum málsins og alvarleika brota hans verði því að fallast á kröfu ákæruvaldsins um að Sverrir Halldór skuli sæta atvinnurekstrarbanni í tvö ár frá birtingu dómsins.


Tengdar fréttir

Hæstiréttur bannar síþrotamanni að stunda rekstur

Hæstiréttur hefur staðfest þriggja ára atvinnurekstrarbann manns sem hefur verið í forsvari fyrir níu félög sem enduðu í gjaldþroti. Þrotabú einkahlutafélags sem maðurinn átti einn fór fram á bannið en lýstar kröfur í búið nema ríflega 300 milljónum króna.

Sættir sig ekki við bann eftir slóð gjald­þrota

Hæstiréttur hefur fallist á að taka fyrir mál manns sem var úrskurðaður í þriggja ára atvinnurekstrarbann í Landsrétti. Þrotabú einkahlutafélags sem maðurinn átti einn fór fram á bannið en lýstar kröfur í búið nema ríflega 300 milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×