Erlent

Sinubruni ógnar einum uppáhaldsgolfvelli ís­lenskra ferða­manna

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Loginn er umfangsmikill en vel gengur að ná tökum á honum samkvæmt miðlum frá svæðinu.
Loginn er umfangsmikill en vel gengur að ná tökum á honum samkvæmt miðlum frá svæðinu. Antonio Cerdán

Stór eldur logar í sinu við á Orihuela Costa á sunnanverðum Spáni. Eldurinn er nokkuð umfangsmikill og logar á milli golfvallanna við Campoamor og Las Ramblas, báðir eru mjög vinsælir meðal íslenskra ferðamanna og golfunnenda og eiga margir Íslendingar sumarhús á svæðinu.

Rýma þurfti fólk úr íbúðarhverfi í nágrenni við golfvellina vegna hvassviðris sem olli því að eldurinn breiddist hratt út. Viðbragðsaðilar eru á hæsta hættustigi og ræstir hafa verið út slökkviliðsmenn og fleiri. Í upphafi var talið að eldurinn ógnaði íbúðarbyggð í kring en svo virðist ekki vera að svo stöddu.

Unnið er að því að slökkva eldinn. Fjögur slökkvilið á svæðinu hafa komið að slökkvistarfinu með tvær þyrlur og eina flugvél. 

Samkvæmt spænska miðlinum Información hefur slökkvistarfið gengið vel og ekki hefur þurft að grípa til frekari rýmingarráðstafana. Eldurinn kviknaði um þrjúleyti á íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×