„Það eru allir harmi slegnir, bæði starfsfólk og eigendur, að lenda í svona tjóni. En lukka að allir séu heilir og ekki hafi orðið manntjón,“ segir Sigurður Halldórsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Pure North, í samtali við fréttastofu.
Eldur kviknaði í hluta af einni vélarlínu af þremur í starfsstöðvunum. Starfsmenn Pure North voru á staðnum að sinna þrifum og viðhaldi þegar eldurinn kom upp. Að sögn Sigurðar var ekki framleiðsla í gangi þegar eldurinn kom upp.
Einn var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til aðhlynningar, og annar á Landspítala vegna reykeitrunar, sagður þungt haldinn. Sigurður segir að sá hafi útskrifast í morgun. „Þannig að það var kannski aðeins ýkt umfjöllun um hans stöðu.“
Sigurður segir enn ekki liggja fyrir hver upptök eldsins eru eða hve umfangsmikið tjónið er. „Þetta virtist vera staðbundið og meiri reykur heldur en eldur,“ segir hann. Líklega sé þá eitthvað um reykskemmdir.
Hann segir ástand hússins verða metið á næstu dögum og í kjölfarið tekin ákvörðun um framhaldið. „En ég geri ráð fyrir því að við ættum að ná upp starfsemi okkar á næstu dögum eða vikum. Það fer eftir því hvað þarf að laga.“