Upp­gjör: Víkingur - KR 1-1 | KR sótti stig gegn Ís­lands­meisturunum

Sverrir Mar Smárason skrifar
KR-liðið varði markið sitt af lífi og sál í dag.
KR-liðið varði markið sitt af lífi og sál í dag. Visir/ Anton Brink

Íslands- og bikarmeistarar Víkings tóku á móti KR í 11. umferð Bestu deildar karla í fótbolta. Þetta var fyrsti leikur KR undir stjórn Pálma Rafns Pálmasonar og sótti hann stig í greipar Íslandsmeistaranna í frumraun sinni.

Þessi fyrsti leikur var ekki sá auðveldasti. Íslandsmeistararnir sem verma toppsæti deildarinnar og það á útivelli. KR-ingar mættu til leiks í nýju kerfi undir stjórn Pálma Rafns. Spiluðu með fimm manna vörn og tvo fremsta. Theodóri Elmari var stillt upp í vinstri vængbakverði.

Pálmi Rafn stýrir KR.Visir/ Anton Brink

Leikurinn byrjaði mjög illa fyrir gestina. Víkingar fengu hornspyrnu á 7. mínútu. Pablo Punyed tók spyrnuna, sendi boltann á fjærstöng og þar var mættur Matthías Vilhjálmsson til þess að skalla boltann í netið. Útlitið gott fyrir Víking.

Matthías fagnar fyrsta marki leiksins.Visir/ Anton Brink

Á 22. mínútu vildu Víkingar fá víti þegar Erlingur Agnarsson var við það að fá gott færi en féll í teignum eftir viðskipti sín við Axel Óskar. Helgi Mikael, dómari leiksins, gaf ekkert fyrir þær beiðnir.

Erlingur fellur hér í grasið eftir að Axel Óskar togaði í hann.Visir/ Anton Brink

Víkingar héldu tökum á leiknum alveg þar til á 32. mínútu þegar Kristján Flóki setti löppina í andlitið á Halldóri Smára sem fékk myndarlegan skurð á ennið. Leikurinn stopp í fimm mínútur og augnablikið snérist algjörlega. Stuttu eftir að leikurinn hófst aftur fékk Benóný Breki boltann upp í vinstra hornið og átti flottan sprett inn á miðju áður en hann sendi boltann yfir á Theodór Elmar í teignum vinstra megin. Theodór Elmar með frábæra móttöku inn á völlinn og setti boltann snyrtilega í hornið framhjá Ingvari í markinu.

KR-ingar héldu áfram að sækja út hálfleikinn en náðu ekki inn öðru marki. 1-1 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var heilt yfir mun jafnari en sá fyrri. KR-ingar náðu að halda Víkingum í skefjum eins og þeir höfðu líklega ætlað sér. Víkingur töluvert meira með boltann en vörn KR lá neðarlega og skallaði frá allt sem kom inn í teiginn.

Bæði lið fengu færi í síðari hálfleik en mistókst að skora. Lokatölur 1-1 jafntefli sem er annað jafntefli Víkings í röð sem getur á morgun misst Blika upp fyrir sig í töflunni.

Atvik leiksins

Ég verð að setja það á atvikið eftir hálftíma leik þegar Kristján Flóki fór með löppina í ennið á Halldóri Smára sem þurfti aðhlynningu. Víkingar höfðu verið með öll tök á leiknum fram að þessu en fimm mínútna stopp tók allan takt úr þeim. KR komst inn í leikinn, jafnaði og gat liðið töluvert betur.

Hægt að nefna líka vítið sem Erlingur Agnarsson fékk ekki á 22. mínútu í stöðunni 1-0. Axel Óskar togaði hann niður og hefði líklega átt að fá rautt spjald líka.

Erlingur fær gult spjald fyrir kjaft, en ekkert víti.Visir/ Anton Brink

Stjörnur og skúrkar

Guy Smit og Axel Óskar hafa þurft að sitja undir mjög harðri gagnrýni fyrir frammistöðu sína í mótinu fram að landsleikjahléi. Þeir voru hins vegar mjög líklega að sanna það hér í kvöld að fyrrum þjálfari liðsins var að biðja þá um hluti sem þeir ráða ekki við. Í dag fengu þeir að spila sinn leik, með vörnina lágt og þá spila þeir svona líka glimrandi vel.

Mér fannst lítið fara fyrir nokkrum sóknarmönnum í leiknum. Ari Sigurpáls hafði mikið pláss á bakvið Theodór Elmar úti hægra megin en náði lítið að nýta það. Sömuleiðis kom lítið út úr Benóný Breka og Kristjáni Flóka saman frammi hjá KR, þó aðallega sóknarlega því þeir skiluðu mikilli varnarvinnu.

Guy Smit var frábær í marki KR í kvöld.Visir/ Anton Brink

Dómarinn

Fyrir utan risa stórt atvik þegar hann klikkar (að mínu mati) á því að gefa Víkingunum víti þá var Helgi fínn í þessum leik. Eins og oft áður virðist hann almennt eiga mjög erfitt með að taka réttar ákvarðanir innan vítateigs. Þetta er allt bara mín skoðun samt.

Stemning og umgjörð

Víkingarnir sungu allan tímann í stúkunni sem var gaman. Ég hefði viljað sjá miklu fleiri KR-inga. Nú er tíminn til þess að flykjast á bakvið liðið.

Vel séð um okkur blaðamenn hér og alltaf gaman að hafa lýsendurna á Stöð 2 Sport með okkur í boxinu.

Viðtöl

Arnar Gunnlaugsson: Víkingar eru aldrei sáttir við jafntefli

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, á hliðarlínunni í kvöld.Visir/ Anton Brink

„Nei ég er ekki sáttur við það. Ekki á heimavelli. Víkingar eru aldrei sáttir við jafntefli. Við spiluðum gríðarlega vel í fyrri hálfleik og ég var að njóta mín á hliðarlínunni. Þegar þú spilar á móti svona liði sem er að ströggla eins og KR og þú færð tækifæri á að ganga frá þeim þá áttu að nýta það. Við gerðum það ekki og þeir komust inn í leikinn. Þá eins og venjulega þegar lið skora þá gaf það þeim auka innspýtingu. Svo er bara erfitt að spila á móti svona low block liði. Þeir vörðust eins og dýrvitlaus ljón og uppskáru jafntefli út frá því,“ sagði Arnar.

Víkingar eru á leið í meistaraleiðina í Evrópukeppnum og við sáum Breiðablik fara illa með deildina á meðan einbeitingin var í þeirri baráttu. Arnar hefur ekki áhyggjur af því að liðið fari sömu leið og Blikar.

„Nei ég held ekki. Ég held það sé ekki hægt að líkja þessu saman. Breiðablik var ekki á sama stað og við erum í deildinni. Þeir voru töluvert neðar að mig minnir. Það er alltaf hættan í þessu að liðið missi takt eða leikmenn þreytist. Mér fannst gott flæði í fyrri hálfleik. Þetta er magnað sport og stundum bara gerast hlutirnir,“ sagði Arnar.


Tengdar fréttir

Óskar gefið skýrt til kynna að hann vilji ekki taka við KR

Gregg Ryder var látinn fara sem þjálfari KR í Bestu deild karla í knattspyrnu fyrr í dag. Pálmi Rafn Pálmason mun stýra liðinu en Óskar Hrafn Þorvaldsson, nýráðinn ráðgjafi knattspyrnudeildar félagsins, mun ekki taka við liðinu að svo stöddu.

KR lætur Ryder fara

KR hefur sagt Gregg Ryder upp. „Ástæða uppsagnar er óviðunandi árangur liðsins það sem af er sumri,“ segir í yfirlýsingu KR.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira