Jamaíka tapaði fyrir Mexíkó, 1-0, í fyrsta leik sínum í Suður-Ameríkukeppninni og strákarnir hans Heimis Hallgrímssonar þurftu því á góðum úrslitum gegn Ekvador að halda.
Ekvador komst yfir á 13. mínútu þegar Kasey Palmer skoraði sjálfsmark. Kendry Páez tvöfaldaði svo forystuna með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Á 54. mínútu minnkaði Michail Antonio, leikmaður West Ham United, muninn fyrir Jamaíku. Markið var sögulegt en þetta var fyrsta mark Jamaíku í Suður-Ameríkukeppninni frá upphafi. Reggístrákunum mistókst að skora í fyrstu sjö leikjum sínum í keppninni.
Jamaíkumenn sáu möguleikann á jöfnunarmarki í hillingum þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir. Dómari leiksins, Cristian Garay, var þá sendur í skjáinn til að skoða hvort Jamaíka ætti að fá víti vegna hendi. Hann dæmdi hins vegar ekki neitt.
Strákarnir hans Heimis reyndu hvað þeir gátu að jafna metin og tóku áhættu undir lokin. Ekvadorar nýttu sér það og skoruðu sitt þriðja mark eftir skyndisókn í uppbótartíma. Lokatölur 3-1, Ekvador í vil.
Ekvador er í 2. sæti B-riðils með þrjú stig, jafn mörg og Mexíkó sem tapaði fyrir Venesúela, 1-0, í hinum leik riðilsins. Salomón Rondón skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 57. mínútu.
Venesúela er komið áfram í átta liða úrslit en Ekvador og Mexíkó mætast í úrslitaleik um hvort liðið fylgir venesúelska liðinu þangað. Jamaíka rekur svo lestina í B-riðlinum án stiga.