Körfubolti

Álfta­nes fær mikla hetju úr Texas há­skólanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andrew Jones í leik með Texas Longhorns.
Andrew Jones í leik með Texas Longhorns. getty/Patrick McDermott

Álftanes hefur fundið sér bandarískan leikmann fyrir næsta tímabil í Subway deild karla í körfubolta. Sá heitir Andrew Jones.

Á síðasta tímabili var Jones næststigahæstur í frönsku C-deildinni. Hann skoraði þá 17,2 stig að meðaltali í leik fyrir Orchies. Þar áður lék Jones með Rasta Vechta í þýsku B-deildinni.

Jones átti afar flottan feril í háskóla með Texas Longhorns. Undir lok annars árs síns í skólanum greindist hann með hvítblæði en hann sneri aftur á völlinn og lék alls 135 leiki fyrir Texas. Í þeim var Jones með rúm tólf stig að meðaltali í leik auk 3,4 frákasta og 2,3 stoðsendinga.

„Andrew var okkar fyrsti kostur í þessa stöðu og er verulega ánægjulegt að fá hann til liðs við okkur. Andrew hefur náð miklum árangri á sínum ferli og við erum viss um að koma hans á Álftanesið verðu gæfuspor fyrir hann og félagið. Hann hefur eiginleika sem munu hjálpa liðinu verulega; hann er frábær skorari og les leikinn einstaklega vel,“ segir Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftnesinga, um nýja leikmanninn.

Auk Jones hefur Álftanes fengið Viktor Steffensen frá Fjölni. Hann var valinn besti leikmaður 1. deildarinnar á síðasta tímabili.

Álftanes endaði í 6. sæti á sínu fyrsta tímabili í efstu deild en tapaði fyrir Keflavík í átta liða úrslitum, 3-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×