Fótbolti

Segir Belling­ham á pari við unga Ron­aldo og Messi

Siggeir Ævarsson skrifar
Cesc Fabregas er sparkspekingur hjá BBC um þessar mundir
Cesc Fabregas er sparkspekingur hjá BBC um þessar mundir vísir/Getty

Spænska goðsögnin Cesc Fabregas, sem starfar um þessar mundir sem sparkspekingur hjá BBC, fullyrðir að Jude Bellingham búi yfir sömu gæðum og Cristiano Ronaldo og Lionel Messi þegar þeir voru á hans aldri.

Fabregas var spurður af kollega sínum hvor hann hefði verið betri leikmaður en Bellingham þegar hann var sjálfur 20 ára en hann var aðeins 16 ára þegar hann gekk til liðs við Arsenal og lék með liðinu í úrslitum Meistaradeildarinnar 19 ára.

„Jude er frábær. Persónuleikinn, hugrekkið. Hann vill fá boltann og er hungraður. Ég sé alveg að áhrifin sem hann hefur á leikinn á þessum aldri eru yfir pari. Samanborið við eldri leikmenn þegar þeir voru á þessum aldri myndi ég bera hann saman við Messi og Cristiano. Það er engin spurning að hann er í sama flokki.“ 

Bellingham, sem verður 21 árs þann 29. júní, gekk til liðs við Real Madrid síðasta sumar eftir þrjú tímabil með Borussia Dortmund. Hann skoraði 23 mörk í 42 leikjum í öllum keppnum og var valinn besti ungi leikmaður Meistaradeilarinnar þar sem hann skoraði fjögur mörk og lagði upp fimm.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann þegar leikið 31 landsleik með Englandi og er einn af lykilleikmönnum liðsins á EM í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×