Erlent

Sóttu sýni á fjarhlið tunglsins

Árni Sæberg skrifar
Frá geimskoti Chang'e 6 í byrjun maí.
Frá geimskoti Chang'e 6 í byrjun maí. Feature China/Getty

Kínverska geimfarinu Chang'e 6 var lent í eyðimörk í Mongólíu í dag að loknu vel heppnuðu tæplega tveggja mánaða ferðalagi til fjarhliðar tunglsins. Kínverjar urðu fyrstir til að lenda geimfari þar árið 2019 og nú hefur þeim tekist að taka með sér sýni frá fjarhliðinni, fyrstum allra.

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að kínverskir vísindamenn hafi beðið spenntir eftir sýnunum, enda séu vonir bundnar við að þau geti varpað ljósi á það hvernig plánetur verða til.

Þá segir að lending á fjarhlið tunglsins sé tæknilega erfið vegna fjölda stórra gíga þar og skorti á flötu yfirborði.

Chang'e 6 hafi verið skotið á loft snemma í maí og lent í gíg nálægt suðurpól tungslins nokkrum vikum síðar.

Þar hafi bor og vélarmi verið beitt til þess að safna saman sýnum og steinum, myndir hafi verið teknar og kínverskur fáni auðvitað dreginn að húni.


Tengdar fréttir

Reyna að sækja fyrsta sýnið frá fjærhlið tunglsins

Kínverskir geimvísindamenn skutu í morgun geimfari af stað til tunglsins. Geimfar þetta ber lendingarfar sem til stendur að lenda á fjærhlið tunglsins. Þar á farið að taka sýni frá tunglinu og flytja það aftur til jarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×