Fótbolti

Foden yfir­gefur her­búðir enska lands­liðsins

Aron Guðmundsson skrifar
Phil Foden í leik með enska landsliðinu
Phil Foden í leik með enska landsliðinu Vísir/Getty

Phil Foden hefur yfirgefið herbúðir enska landsliðsins, sem þessa dagana tekur þátt á Evrópumótinu í Þýskalandi, vegna persónulegra ástæðna. BBC hefur greint frá því að Foden hafi haldið til Englands til að verða viðstaddur fæðingu þriðja barns síns og unnustu sinnar Rebeccu Cooke.

Fyrir eiga þau hinn fimm ára gamla Ronnie og hina tveggja ára gömlu True. Enska knattspyrnusambandið greindi frá fjarveru Foden í yfirlýsingu fyrr í dag en óvíst er á þessum tímapunkti hvenær hann snýr aftur í enska landsliðið en vonir standa til að það verði fyrir næsta leik Englands á EM í sextán liða úrslitum mótsins.

Úrslit Englands í riðlakeppninni nægðu til að tryggja liðinu sæti í útsláttarkeppninni. Enska landsliðið  náði í einn sigur og gerði tvö jafntefli í riðlakeppninni þar sem að liðið var í riðli með Danmörku, Serbíu og Slóveníu. 

Leikur liðsins í sextán liða úrslitunum fer fram á sunnudaginn kemur og verður það ljóst í kvöld hvaða lið bíður Englendinga þar. Tíminn mun svo leiða það í ljóst hvort Foden verði þá aftur mættur til Þýskalands í tæka tíð fyrir leikinn.

Foden, sem er á mála hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester City var valinn leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en Manchester City stóð þá uppi sem Englandsmeistari.

Foden er 24 ára gamall og hefur leikið með Manchester City allan sinn atvinnumannaferil og unnið allt sem hægt er að vinna með félaginu.  Þá á hann að baki 37 A-landsleiki fyrir Englands hönd og hefur byrjað alla leiki liðsins á yfirstandandi Evrópumóti.

Uppfært klukkan 15:25 með upplýsingum frá BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×