Innlent

23 fer­metra þjóð­fáni til sýnis í Reykja­nes­bæ

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Eva Kristín Dal, safnstjóri Byggðasafns Reykjanesbæjar, sem segir að nýja sýningin með stóra fánanum hafi vakið mikla athygli.
Eva Kristín Dal, safnstjóri Byggðasafns Reykjanesbæjar, sem segir að nýja sýningin með stóra fánanum hafi vakið mikla athygli. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Stærsti þjóðfáni landsins er nú til sýnis í Keflavík í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins en fáninn var einmitt hylltur á lýðveldishátíðinni 1944 á Þingvöllum. 

Sýningin „Rís þú, Íslands unga merki“ stendur nú yfir hjá Byggðasafni Reykjanesbæjar en aðalsýningargripurinn er fáninn sem hylltur var á lýðveldishátíðinni 1944 en með einhverjum ráðum tókst Helga S. Jónssyni að fá fánann til Keflavíkur að lýðveldishátíðinni lokinni og var honum flaggað á þjóðhátíðardaginn í skrúðgarðinum þar til ársins 1973 þegar annar fáni tók við.

„Og fáninn endaði í Byggðasafninu og okkur fannst alveg tilvalið að draga hann fram og sýna hann núna í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins og líka það að Reykjanesbær átti 30 ára afmæli í síðustu viku,“ segir Eva Kristín Dal, safnstjóri Byggðasafns Reykjanesbæjar.

En helstu stærðartölur á fánanum, hverjar eru þær?

„Hann er tæpir sex metrar á lengd og fjórir á hæð, þannig að hann er rétt tæpir 23 fermetrar. Þetta er engin smá smíði því það er ekkert að grín að sýna svona en við eigum þennan frábæra sal til að sýna hann í,“ bætir Eva Kristín við.

Fánin er rétt tæpir 23 fermetrar að stærð og líklega stærsti þjóðfáni Íslands.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Þó að fáninn sé í aðalhlutverki á sýningunni þá eru ýmsar aðrar gagnlegar upplýsingar um hann á sýningunni.

„Öðrum megin erum við að sýna myndir frá lýðveldishátíðinni og vídeó og allskonar gripi, sem tengjast stofnun lýðveldisins en hinum megin þá ákváðum við að sýna fánann eins og hann var notaður í Reykjanesbæ, myndir og líka kvikmynd frá hátíðarhöldum í skrúðgarðinum hérna enda er sagan hans 30 ára löng hérna í Reykjanesbæ,“ segir Eva Kristín að endingu.

Heimasíða Byggðasafns Reykjanesbæjar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×