Innlent

„Á­nægju­legt að sjá hvað fólk var yfir­vegað“

Vésteinn Örn Pétursson og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri ræddi eldsvoðann á Höfðatorgi í Kvöldfréttum Stöðvar 2. 
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri ræddi eldsvoðann á Höfðatorgi í Kvöldfréttum Stöðvar 2.  Vísir

Eldur kviknaði við veitingastað á jarðhæð turnsins á Höfðatorgi í dag og rýma þurfti bygginguna þar sem á annað þúsund manns starfa. Lögregla rannsakar nú eldsupptök. Slökkviliðsstjóri segir rýmingu hafa gengið afbragðsvel. 

Forstjóri fasteignafélagsins sem á bygginguna segir tjónið minna en óttast var við. Allt húsið er í eigu fasteignafélagsins Heima. 

Fréttamaður fór yfir stöðuna á svæðinu þar sem eldsvoðinn varð og ræddi við Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóra í Kvöldfréttum.

„Slökvistarfið gekk bara vel. Eins og þú sérð er greið aðkoma að þessu þó svo þau [slökkviliðið] hafi þurft að fara yfir blettinn. Meginupptökin eru bara rétt fyrir innan,“ segir Jón Viðar og bendir á að húsið sé vel hannað, það hafi hjálpað til í slökkvistarfinu. 

Mikill fjöldi fólks vinnur í húsinu á Höfðatorgi. Aðspurður segir Jón Viðar hafa gengið mjög vel að rýma húsið. 

„Algjörlega til fyrirmyndar og ánægjulegt að sjá hvað fólk var yfirvegað og það virtist vera svolítið kerfi á þessu,“ segir Jón Viðar. Fréttastofa ræddi við rýmingarfulltrúa síns vinnurýmis á vegum Reykjavíkurborgar í dag, sem sagði rýminguna hafa gengið vel. Jón Viðar sagði ánægjulegt að sjá að mikið kerfi virtist á rýmingarmálum. 

Lögregla rannsakar nú eldsupptök, sem enn eru ókunn. „Það tekur örugglega einhvern tíma að skoða en við fáum örugglega að vita af því þegar það liggur fyrir,“ segir Jón Viðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×