Erlent

Eldur kviknaði í ráðu­neyti

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Eldurinn kviknaði fyrir um níuleytið á íslenskum tíma.
Eldurinn kviknaði fyrir um níuleytið á íslenskum tíma. X/Jens Ringberg

Eldur kviknaði í húsakynnum skattamálaráðuneytis Danmerkur í miðborg Kaupmannahafnar í morgun. Stórir reykjarstólpar stigu upp úr byggingunni við síkið í Kristjánshöfn.

Viðbragðsaðilar voru snöggir á vettvang og við tók slökkvistað. Byggingin var rýmd og miðað við fréttaflutning danska ríkisútvarpsins hefur slökkvilið náð tökum á eldinum.

Jeppe Bruus skattamálaráðherra sat á fundi í byggingunni þegar brunavarnarbjallan hóf að óma um gangana.

„Og maður fann það alveg á lyktinni að það var bruni. Og það var eldfljótur samstarfsaðili í gulu vesti sem var upptekinn við það að koma fólki út. Þannig ég tók töskuna mína og skundaði mér úr byggingunni,“ segir Jeppe Bruus í samtali við danska ríkisútvarpið og hrósaði viðbragðsaðilum og samstarfsfélögum fyrir skjót viðbrögð.

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur gefið út að slökkviliðinu hefur tekist að ná tökum á eldinum og að unnið væri að því að fá slökkt í síðustu glæðunum. 

„Við erum enn á vettvangi og svæðið verður afgirt í smástund áfram,“ skrifar lögreglan í færslu á samfélagsmiðlinum X fyrir skemmstu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×