Innlent

Heildar­kostnaður við varnar­garða nærri sjö milljarðar

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hraunspýjur náðu að teygja sig upp yfir þá varnargarða sem þegar eru til staðar áður en að eldgosinu lauk.
Hraunspýjur náðu að teygja sig upp yfir þá varnargarða sem þegar eru til staðar áður en að eldgosinu lauk. Vísir/Arnar

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur gefið ríkislögreglustjóra heimild til að hefja vinnu við hækkun og styrkingu varnargarða í nágrenni Grindavíkur. Heildarkostnaður við garðana er metinn á nærri sjö milljarða króna.

Þann átjánda júní síðastliðinn braust hrauntunga yfir varnargarðinn við Svartsengi. Hraunið hækkaði jafnt og þétt við garðinn og áður en gosi lauk var unnið í kappi við tímann með jarðvegsframkvæmdum og hruankælingu.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins kemur fram að hraunkælingu hafi nú verið beitt á fjórum stöðum við varnargarð L1 og við Grindavíkurveg. Að mati almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra hafi mikill lærdómur verið dreginn af framkvæmd hraunkælingar og sé það metið sem svo að þeim markmiðum sem sett voru í upphafi hafi verið náð.

„Dómsmálaráðherra tók ákvörðun að fenginni framangreindri tillögu ríkislögreglustjóra. Aukin afköst voru því við að hækka garðinn því þessi varnarlína er afar mikilvæg. Allar innri línur eru alltaf erfiðari og stutt er í Orkuverið. Staðan var orðin frekar tæp og unnið var í kapp við tímann. Áætlaður viðbótarkostnaður er um 250-350 milljónir króna,“ segir í tilkynningunni.

Í heildarkostnaðinum felast þær hækkanir og styrkingar sem nefndar hafa verið, innri garður í námunda við orkuverið og ýmiss konar aðlögun vegna vegtenginga og umhverfissjónarmiða við lok framkvæmda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×