Handbolti

Riðlar Meistara­deildarinnar klárir: Ís­lendingar á­berandi í bestu deild í heimi

Aron Guðmundsson skrifar
Hér má sjá sex af þrettán fulltrúum Íslands í Meistaradeildinni í handbolta á næsta tímabili. Guðmundur Guðmundsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Bjarki Már Elísson, VIktor Gísli Hallgrímsson, Orri Freyr Þorkelsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson
Hér má sjá sex af þrettán fulltrúum Íslands í Meistaradeildinni í handbolta á næsta tímabili. Guðmundur Guðmundsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Bjarki Már Elísson, VIktor Gísli Hallgrímsson, Orri Freyr Þorkelsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson Vísir/Samsett mynd

Þrettán Ís­lendingar fengu að vita hverjir mót­herjar sínir verða í riðla­keppni Meistara­deildarinnar í hand­bolta þegar dregið var í dag í Vínar­borg. Ó­hætt er að segja að B-riðill keppninnar sé hálf­gerður mar­traðar­riðill.

Eins og staðan er núna munu tólf ís­lenskir leik­menn spila í Meistara­deildinni á næsta tíma­bili en þeim gæti þó fjölgað eftir því sem dregur nær. Þá verður einn ís­lenskur þjálfari í eld­línunni með sína læri­sveina í þessari bestu fé­lags­liða deild í heimi, Guð­mundur Guð­munds­son mætir þar til leiks með danska úr­vals­deildar­fé­lagið Fredericia.

Riðla­keppni Meistara­deildarinnar í hand­bolta skiptist upp í tvo riðla, A- og B-riðil. Hér fyrir neðan má sjá hvernig drátturinn fór, hvaða lið eru í hvaða riðli og fyrir aftan í sviga hvaða Ís­lendingar eru á mála hjá hvaða liði.

Riðlar Meistaradeildarinnar í handbolta:

A-riðill: 

  • Wisla Plock (Viktor Gísli Hallgrímsson)
  • Vezprém (Bjarki Már Elísson)
  • Paris Saint-Germain
  • Fredericia (Guðmundur Guðmundsson, þjálfari - Arnór Viðarsson, Einar Þorsteinn Ólafsson)
  • Fuchse Berlin
  • Sporting CP (Orri Freyr Þorkelsson)
  • Dinamo Bucuresti 
  • HC Eurofarm Pelister

B-riðill:

  • Álaborg
  • Magdeburg (Gísli Þorgeirs Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon)
  • Barcelona
  • Kielce (Haukur Þrastarson)
  • PICK Szeged (Janus Daði Smárason)
  • Nantes 
  • Zagreb 
  • Kolstad (Benedikt Gunnar Óskarsson, Sigvaldi Björn Guðjónsson, Sveinn Jóhannsson)

Fyrstu leikir Meistara­deildarinnar munu fara fram þann 11.septem­ber síðar á þessu ári en fyrir­fram er ó­hætt að segja að B-riðillinn sé sterkari þar sem er að finna þrjú af þeim fjórum liðum sem komust alla leið í úr­slita­helgi keppninnar á síðasta tíma­bili.

Er þar um að ræða nú ríkjandi Evrópu­meistara Barcelona frá Spáni sem og liðið sem þeir mættu í sjálfum úr­slita­leiknum, Dan­merkur­meistara Ála­borgar. Þá er Ís­lendinga­lið Mag­deburg sem, hefur verið með bestu fé­lags­liðum heims, einnig í B-riðli.

Leiknar verða fjór­tán um­ferðir í riðla­keppni Meistara­deildarinnar og munu efstu tvö lið hvers riðils fyrir sig tryggja sér sæti í átta liða úr­slitum. Liðin sem enda í þriðja til sjötta sæti riðlanna munu svo mætast í um­spili um þau fjögur lausu sæti sem eftir verða í átta liða úr­slitunum.

Liðin sem enda í sjöunda og áttunda sæti riðlanna falla úr leik eftir riðla­keppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×