Golf

Sú besta í heimi bitin af hundi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nelly Korda bað alla afsökunar á því að þurfa að draga sig út úr mótinu.
Nelly Korda bað alla afsökunar á því að þurfa að draga sig út úr mótinu. Getty/ Ezra Shaw

Nelly Korda er efst á heimslistanum í golfi en hún verður ekki með á næsta móti á evrópsku mótaröðinni. Ástæðan er þó af furðulegri gerðinni.

Korda sagði frá því á samfélagsmiðlum sínum að hún hafi þurft að draga sig út úr mótinu vegna meiðsla.

Korda átti að keppa á LET Aramco Team Series mótinu í Englandi sem fer fram frá 3. til 5. júlí.

Hún hafði titil að verja því hún vann þetta 54 holu mót í fyrra með fjórum höggum.

„Því miður verð ég að tilkynna það að ég hef orðið að hætta við þátttöku á mótinu í London í næstu viku,“ skrifaði Korda.

„Ég var bitin af hundi í Seattle á laugardaginn og þarf meiri tíma til að fá rétta meðhöndlun og ná mér að fullu,“ skrifaði Korda.

Korda sagði ekki frá því hvar hundurinn beit hana. Hún var að keppa á KPMG móti á PGA mótaröðinni sem fór fram í Washington fylki. Korda náði ekki niðurskurðinum á mótinu.

„Ég vil biðja LET afsökunar á fjarveru minni, sem og stuðningsaðila og aðdáendur mína. Takk fyrir skilninginn en ég hlakka til að snúa aftur inn á golfvöllinn,“ skrifaði Korda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×