Erlent

Frakkar ganga að kjör­borðinu

Árni Sæberg skrifar
Kjörstaðir hafa verið opnaðið í Frakklandi, meðal annars í Saint-Vaast-sur-Seulles í Calvados, þar sem þessi mynd er tekin.
Kjörstaðir hafa verið opnaðið í Frakklandi, meðal annars í Saint-Vaast-sur-Seulles í Calvados, þar sem þessi mynd er tekin. Artur Widak/Getty

Kosningar, sem gætu orðið sögulegar, eru hafnar í Frakklandi. Aldrei áður hefur flokkur lengst til hægri verið líklegri til þess að bera sigur úr býtum í kosningum þar í landi.

Skoðanakannanir í Frakklandi benda allar til þess að Franska þjóðfylkingin, harðlínu-hægri flokkur Marine le Pen og Jordan Bardella, muni sigla heim stórsigri í fyrri umferð þingkosninganna í Frakklandi, sem hófst í morgun.

Emmanuel Macron boðaði nokkuð óvænt til kosninga í kjölfar stórsigurs hægriafla í Evrópuþingskosningum í Frakklandi fyrr í mánuðinum.

Þjóðfylkingin hefur bætt við sig talsverðu fylgi í síðustu skoðanakönnunum fyrir þingkosningarnar. Búist er við mikilli kjörsókn í fyrri umferð kosninganna og útlitið er svart fyrir Miðjuflokk Macrons, Frakklandsforseta.

Stjórnmálaskýrendur eru flestir sammála um að líklegustu niðurstöður verði afdrifaríkar fyrir Frakkland. Þá gæti reynst ómögulegt að mynda meirihluta eftir aðra umferð kosninganna 7. júlí.

Talsverðar líkur eru þannig á því að Jordan Bardella, forseti Þjóðfylkingarinnar verði næsti forsætisráðherra Frakklands. Jordan Bardella er 28 ára gamall maður sem hefur ekki setið í ríkisstjórn áður.

Bardella hefur tilkynnt að hann muni ekki tilla sér í stól forsætisráðherra nema Þjóðfylkingin nái hreinum meirihluta á franska þinginu. Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að sú tilkynning gæti dregið dilk á eftir sér, Frakkar muni hugsanlega kjósa taktískt í seinni umferð kosninganna til þess að koma í veg fyrir að Bardella verði forsætisráðherra.

Seinni umferð kosninganna fer fram þann 7. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×