Sport

Fjögur móts­met slegin og að­eins sentí­metri skildi að í lang­stökkinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Baldvin Þór Magnússon setti mótsmet í 1500 metra hlaupi.
Baldvin Þór Magnússon setti mótsmet í 1500 metra hlaupi. frí

Á öðrum keppnisdegi Meistaramóts Íslands í frjálsum íþróttum voru fjögur mótsmet slegin. Keppni í langstökki kvenna var æsispennandi.

Baldvin Þór Magnússon setti mótsmet í 1500 metra hlaupi en hann hljóp á 3:50,87 mínútum. Gamla metið átti Hlynur Andrésson sem var sett í fyrra en það var 3:53,28 mínútur. Andrea Kolbeinsdóttir vann í kvennaflokki en hún hljóp á 4:35,16 mínútum. Andrea vann einnig sigur í þrjú þúsund metra hindrunarhlaupi á föstudaginn.

Elísabet Rut Rúnarsdóttir og Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir, sem kepptu báðar á EM fyrr í mánuðinum, bitust um sigurinn í sleggjukasti. Elísabet hafði betur með kasti upp á 68,70 metra sem er mótsmet. Guðrún varð önnur með 67,12 metra kast. Hilmar Örn Jónsson hrósaði sigri í karlaflokki með 72,31 metra kast.

Keppni í sleggjukasti kvenna var hörð.frí

FH-ingurinn Sindri Hrafn Guðmundsson setti mótsmet í spjótkasti er hann kastaði 82,55 metra. Gamla metið var frá 2013 en Guðmundur Sverrisson átti það (80,66 metrar). Í kvennaflokki hrósaði Arndís Diljá Óskarsdóttir sigri með kasti upp á 46,46 metra.

Kristófer Þorgrímsson setti mótsmet í hundrað metra hlaupi. Hann kom í mark á 10,58 sekúndum og bætti persónulegan árangur sinn um þrjú sekúndubrot. María Helga Högnadóttir vann gullið í kvennaflokki en hún hljóp á 12,02 sekúndum.

Mikil spenna var í langstökki kvenna þar sem þær Birna Kristín Kristjánsdóttir og Irma Gunnarsdóttir börðust um sigurinn. Irma hafði betur en hún stökk metra lengur en Birna, eða 6,32 metra. Daníel Ingi Egilsson vann sigur í karlaflokki með stökki upp á 7,28 metra.

Daníel Ingi Egilsson í loftköstum.frí

Guðmundur Heiðar Guðmundsson (15,17 metrar) og Júlía Kristín Jóhannesdóttir (14,35 metrar) hrósuðu sigri í 110 metra grindahlaupi.

Tómas Ari Arnarsson varð hlutskarpastur í hástökki karla en hann stökk 1,83 metra og Gunnar Eyjólfsson vann stangarstökk karla (4,60 metrar).

Í 400 metra hlaupi unnu Eir Chang Hlésdóttir (56,53 sekúndur) og Hermann Þór Ragnarsson (49,50 sekúndur) sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×